Það hefur vakið mikla athygli að fulltrúar hins nýja Þjóðvaka í utanríkisnefnd skyldu ekki styðja þingsályktunartillögu Steingríms J. Sigfússonar um brottför varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Meðal þessara fulltrúa var Márgret Frimannsdottir, formaður Alþýðubandalagsins, en sá flokkur hefur sem kunnugt er barist gegn veru varnarliðsins hér með oddi og egg alveg frá upphafi. Er því eðlilegt að spyrja, hvort Alþýðubandalagið hafi breytt um stefnu í þessu máli og jafnframt hvenær það gerðist. Fjölmargir stuðningsmenn Alþýðubandalagsins hljóta að telja sig eiga rétt á skýrum svörum í þessu sambandi, enda hefur andstaðan við varnarliðið og aðild Íslands að NATO verið eitt helsta sameiningaraflið í flokknum og grundvallarþáttur í stefnu hans. Við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær greiddu þeir fjórir þingmenn sem eftir eru í Alþýðubandalaginu atkvæði hver með sínum hætti. Ragnar Arnalds var með, Bryndís Hlöðversdóttir á móti, Sigríður Jóhannesdóttir sat hjá og Margrét Frímannsdóttir var með fjarvistarleyfi í þessu erfiða máli.
Ekki er hægt að segja, að Margrét hafi svarað því með skýrum hætti, þegar þessi stefnubreyting hefur verið borin undir hana í fjölmiðlum. Fremur má segja að hún hafi farið undan í flæmingi og reynt að drepa málinu á dreif með óljósum svörum. Hitt vekur svo líka athygli, að fjölmiðlar skuli ekki hafa gengið á Margréti til að fá skýr svör við því hvort þessi afstaða í utanríkisnefnd feli í sér stefnubreytingu af hálfu hins nýja Þjóðvaka. Andstaða við áframhaldandi veru varnarliðsins var nefnilega eitt af kjarnaatriðunum í utanríkismálakafla stefnuskrár Þjóðvakans, sem kynnt var með pompi og prakt síðastliðið haust, en var síðan stungið undir stól.
Á sama tíma og samþrykkingarfólkið er að vandræðast með afstöðu sína í utanríkis- og varnarmálum og gefa misvísandi yfirlýsingar í allar áttir er þess víða minnst að í vor verða 50 ár liðin frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Hlutverk bandalagsins hefur að sönnu tekið nokkrum breytingum vegna breyttra aðstæðna í alþjóðamálum, en kjarninn í stefnu þess og starfsemi á þó jafnt við í dag og fyrir hálfri öld, þ.e. að tryggja aðildarríkjunum frið og frelsi og skapa stöðugleika á vettvangi alþjóðamála. Meðal þess sem gert er hér á landi til að minnast afmælisins er ritgerðasamkeppni, sem efnt hefur verið til af hálfu Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu. Í þeirri samkeppni gefst ungu fólki kostur á að tjá skoðanir sínar á hlutverki Atlantshafsbandalagsins í breyttu umhverfi og gefst sigurvegurunum í keppninni kostur á að heimsækja aðalstöðvar bandalagsins síðar á árinu. Skilafrestur í samkeppninni er 15. mars, en nánari upplýsingar má finna hér.
Í könnun meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja Vinnuveitendasambands Íslands og Verslunarráðs Íslands kemur fram að þeir telja almennt að lög og stjórnvaldsfyrirmæli á sviði starfsmannamála séu að verða æ flóknari og að kostnaður við að framfylgja þeim fari vaxandi. Meirihluti svarenda telur kerfið ósveigjanlegt og þungt í vöfum og að ekki sé haft nægilegt samráð við fyrirtækin þegar reglur á þessu sviði eru settar. Samkvæmt svörum stjórnendanna er kostnaður fyrirtækjanna vegna skattareglna að meðaltali um 1.450 þúsund kr. á ári og ef sú upphæð er yfirfærð á öll aðildarfyrirtæki Verslunarráðs og Vinnuveitendasambandsins er samanlagður kostnaður þeirra af þessum völdum um 3.900 milljónir króna árlega.