Fyrir áratug viðraði Steingrímur Hermannsson þáverandi forsætisráðherra þá hugmynd að skattleggja Reykvíkinga sérstaklega. Þáverandi borgarstjóri benti hins vegar á að allir eiga að vera jafnir fyrir skattalögum og sérstakur skattur á Reykvíkinga stæðist ekki frekar en sérstakur skattur á alla rauðhærða menn sem heita Steingrímur Hermannsson og búa á Arnarnesinu. Nú hefur tillaga Steingríms skotið upp kollinum á ný en nú heitir hún að lækka eigi skatta á aðra en þá sem búa í þéttbýlinu. Höfundur tillögunnar er Guðni Ágústsson en sér til meðreiðar hefur hann nokkra landsliðsmenn úr Framsóknarflokknum. Tillagan gerir til dæmis ráð fyrir að skattar séu lægri á skipstjóra úti á landi en verkamann í Kópavogi. Það gleður vafalaust Reyknesinga að þingmaður þeirra Hjálmar Árnason er meðreiðarsveinn Guðna í þessu máli.
Í Morgunblaðinu um helgina var auglýsing frá umhverfisráðuneytinu um Umhverfisverðlaun til fjölmiðla. Þar er auglýst eftir tilnefningum til verðlauna umhverfisráðuneytisins fyrir vandaða umfjöllun um umhverfismál í fjölmiðlum. Það hlýtur að orka tvímælis að ráðuneyti reyni að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla með þessum hætti. Það er væntanlega ekki líklegt að þeir sem eru á öndverðum meiði við ráðuneytið hreppi verðlaunin. Vef-Þjóðviljinn íhugar að tilnefna Hjörleif Guttormsson og tryggja sér um leið bjartsýnisverðlaun.
Það vakti nokkra furðu þeirra sem fylgdust með umræðum um 10 ára afmæli bjórsins í fjölmiðlum í gær að hvers kyns bindindisfrömuðir sem starfa á vegum hins opinbera fjölmenntu í afmælið. Virðist fjöldi þeirra vera jafn takmarkalaus og yfirgengilegur og skattheimtan af áfenginu. Afmæliskveðja frömuðanna var eitthvað á þá leið að drykkja hefði aukist í kjölfar þess að bjórinn var leyfður. Þeir virðast ekki taka tillit til þess að smygl var mjög mikið áður en bjórinn var leyfður og vafalaust hefur einnig dregið úr heimabruggun eftir að bjórinn varð löglegur. Þá hefur ferðamönnum fjölgað mikið á síðust 10 árum sem skekkir dæmið. Þetta kemur svo sem ekki á óvart þar sem forsjárhyggjulið af þessu tagi neitar yfirleitt að viðurkenna ýmsar hliðarverkanir af boðum og bönnum.