Ólafur Björnsson hagfræðiprófessor lést í vikunni sem leið, 87 ára að aldri. Ólafur var um áratugaskeið einn helsti baráttumaður frjálslyndra sjónarmiða í efnahags- og atvinnumálum hér á landi og verða áhrif hans á því sviði seint ofmetin. Ólafur hafði bein áhrif á mörg skref sem tekin voru í frjálsræðisátt, bæði sem ráðgjafi ríkisstjórna og sem alþingismaður Sjálfstæðisflokksins um árabil. Átti hann meðal annars ríkan þátt í mótun stefnu Viðreisnarstjórnarinnar, sem á sjöunda áratugnum losaði verulega um þau heljartök sem ríkisafskipti og haftastefna höfðu haft á atvinnulífinu.
Bein áhrif Ólafs Björnssonar á stefnumótun voru mikil um skeið. Hins vegar voru þau óbeinu áhrif, sem hann hafði í íslensku stjórnmálalífi, trúlega mikilvægari. Hann var í hópi þeirra tiltölulega fáu íslensku menntamanna, sem gerðu sér grein fyrir því þegar á kreppuárunum að sósíalisminn hafði ekki upp á að bjóða raunverulegar lausnir í stjórnmálum og efnahagsmálum. Hann tók sér því fyrir hendur að kynna hugmyndir og sjónarmið fræðimanna, sem höfnuðu sósíalismanum, og er ljóst að þýðing hans á köflum úr bókinni Leiðinni til ánauðar eftir Friedrich von Hayek árið 1945 hafði mótandi áhrif á skoðanir stórs hóps ungra borgaralega sinnaðra manna. Bók hans Þjóðarbúskapur Íslendinga, sem út kom 1952, hafði einnig veruleg áhrif, enda var þar að finna vandaða greinargerð um íslensk efnahagsmál. Er vert að hafa í huga, að ótrúlega lítið hafði verið fjallað á fræðilegan hátt um íslensk efnahagsmál á þessum tíma. Tiltölulega fáir Íslendingar höfðu aflað sér menntunar á sviði hagfræði og margir þeirra voru harðir sósíalistar. Skrif manna eins og Ólafs voru því afar mikilvæg fyrir þá borgaralega sinnuðu stjórnmálamenn og menntamenn, sem höfnuðu sósíalismanum og vildu fara leið aukins frjálsræðis.
En síðar á lífsleiðinni átti Ólafur aftur eftir að leggja ungum frjálslyndum mönnum lið í hugmyndabaráttunni svo um munaði. Þetta var í lok áttunda áratugarins þegar sífellt fleiri voru farnir að átta sig á því að velferðarkerfið hafði vaxið út fyrir öll skynsamleg mörk og skattheimta og skuldasöfnun hins opinbera orðin stórhættuleg. Á þessum tíma komst klassísk frjálslyndisstefna eða frjálshyggja aftur á dagskrá víða um Vesturlönd og átti Ólafur ríkan þátt í því að hugmyndir af þeim toga náðu eyrum margra ungra Íslendinga. Útgáfa bókar hans Frjálshyggja og alræðishyggja árið 1978 var upphafið að mikilli grósku í útgáfustarfi og hugmyndavinnu íslenskra frjálshyggjumanna, og má fullyrða að frá þessum tíma hafi frjálshyggjumenn haft allt frumkvæði í hugmyndafræðilegri umræðu hér á landi en vinstri menn verið í vörn. Bækur Ólafs, Frjálshyggja og alræðishyggja og ritgerðasafnið Einstaklingfrelsi og hagskipulag (útg. 1982), hafa í nærfellt tvo áratugi verið mikilvægt vopn í þeirri baráttu. Er þá ótalin sú aðstoð og hvatning, sem Ólafur veitti ungum frjálshyggjumönnum í hugmyndabaráttunni meðan þrek og heilsa leyfði.
Flest af því sem Ólafur Björnsson lét frá sér fara um þjóðfélagsmál hefur staðist tímans tönn. Er þar ólíku saman af jafna skrifum hans og helstu hugmyndafræðinga vinstri manna á seinni hluta aldarinnar. Í bók sinni Frjálshyggja og alræðishyggja segir Ólafur til dæmis frá því hvernig vinstri menn hófu um 1970 af afsaka fyrri skoðanir sínar og kynna nýja stefnu sem þeir nefndu nýja vinstri stefnu. Var þessi nýja stefna einnig nefnd þriðja leiðin. Voru flestir vinstri menn þá loksins búnir að átta sig á því að vonlaust væri að telja fólki trú um að fyrirmyndaríkið í Sovét væri til fyrirmyndar. Um þessa stefnubreytingu segir Ólafur í bókinni (bls. 193) í kaflanum Nýja vinstri stefnan: Þar sem nýja vinstri stefnan fordæmir jöfnum höndum gróðahyggju og markaðsbúskap kapítalismans og hið alvalda skrifstofubákn sovétkommúnismans, þá verður spurningin á hvaða grundvelli eigi að byggja hagkerfið? Hér verða svörin ærið óljós og í því liggur veikleiki stefnunnar. Helst virðist vaka fyrir áhangendum hennar, að byggja beri hagkerfið á félagslegum eignarrétti, þar sem fyrirtækjum sé stjórnað af frjálsum samtökum þeirra sem við fyrirtækin vinna. Mundi slíkt efnahagskerfi minna mjög á hagkerfi Júgóslavíu, án þess að það komi þó fram hjá höfundum nýju vinstri stefnunnar, að þeir leiti þar fyrirmyndar. Svo bætti Ólafur við: Um það bil sem öldur nýju vinstri stefnunnar risu sem hæst, og þeirra gætti einnig hér á landi komst kunnur íslenskur stjórnmálamaður svo að orði, að boðendur þessarar stefnu vissu að vísu hverju þeir væru á móti, en aðspurðir um, hverju þeir væru með yrði öllu ógreiðara um svörin.
Eins og sjá má á þessum skrifum Ólafs fyrir rúmum 20 árum er það ekkert nýtt að vinstri menn reyni að breiða yfir skoðanir sínar með nýrri vinstri stefnu.