Árni Finnsson hjá þeim öfgasamtökum sem kalla sig Náttúruverndarsamtök Íslands virðist eindreginn stuðningsmaður þess að útblástur gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu verði aukinn meira en þörf krefur. Í viðtali við við DV í vikunni átelur Árni íslensk stjórnvöld fyrir að undirrita ekki Kyoto bókunina. Með því að undirrita Kyoto bókunina myndu Íslendingar hins vegar játa þeim afarkostum að geta ekki nýtt endurnýjanlegar orkulindir sínar til iðnaðarframleiðslu. Eins og menn vita gefa þessar orkulindir ekki frá sér gróðurhúsalofttegundir en samkvæmt þessari sömu Kyoto bókun eru gróðurhúsalofttegundir ein helsta ógnunin við lífið á Jörðinni.
Álver á Íslandi sem nýtir orku úr fallvötnum landsins gefur aðeins frá sér 10% af þeim gróðurhúaslofttegundum sem sambærilegt álver knúið jarðefnaorku gefur frá sér. Árni Finnson og hin svokölluðu Náttúruverndarsamtök Íslands vilja með öðrum orðum ekki nýta orkulindir Íslands til að draga úr útblæstri góðurhúsalofttegundanna sem þeir telja vera eitt helsta umhverfisvandamálið! Hinn nýi þingflokkur Þjóðvaka hefur tekið undir með öfgasamtökunum. Í þessum nýja þingflokki er Sighvatur Björgvinsson fyrrum iðnarðarráðherra sem lagði töluvert á sig fyrir nokkrum árum til að hér yrðu reist ný álver. Þar er líka Össur Skarphéðinsson fyrrum umhverfisráðherra en í ráðherratíð hans jókst útblástur koltvísýrings hér á landi þrátt fyrir að annar krati Eiður Guðnason að nafni hefði nokkrum árum áður undirritað Ríó sáttmála fyrir Íslands hönd um að auka ekki slíkan útblástur.
Í þessu sambandi má geta þess að Margrét Frímannsdóttir sagði í kvöldfréttum í fyrradag að fyrst Ísland mundi ekki skrifa undir Kyoto fyrir 15. mars þá hefðum við mun minni aðgang að ferlinu sem framundan er varðandi útfærslu samningsins en ella. Þetta er einfaldlega rangt. Staða okkar í ferlinu breytist ekkert. Við erum á öllum fundum, í öllu undirbúningsstarfi, höfum aðgang að öllum pappírum eftir sem áður. Ef við ákveðum síðan einhvern tíma að vera með, þ.e. ef skilyrðin verða þannig að þau gera okkur það kleift (hvaða skoðun við svo sem höfum á því að vera með), þá getum við það þá og þegar. Og reyndar eigum við þess kost að staðfesta þennan samning á undan öðrum, ef skilyrðin lagast fljótlega. Enginn fjölmiðill rekur þessa rangfærslu ofan í hana.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Margrét fer með augljós ósannindi í fjölmiðla. Hún sagði fyrir nokkrum mánuðum, í umræðu um skuldir Alþýðubandalagsins, að ekki mætti gleyma því að Sigfúsarsjóðurinn ætti talsverðar eignir sem gætu auðvitað nýst flokknum. Sigurjón Pétursson kom þá í fjölmiðla og sagði að sjóðurinn væri alveg ótengdur Alþýðubandalaginu og mundi því ekki nýtast í þessum tilgangi. Enginn fjölmiðlamaður innti hana eftir þessum rangfærslum hennar.
Í gær sagði Margrét svo að sér fyndist skrýtið að ýmsir brottgengnir þingmenn Alþýðubandalagsins á þessu kjörtímabili teldu sig óbundna af skuldum bandalagsins, og þessi orð voru myndskreytt með myndum af Steingrími og Hjörleifi, sem hún átti greinilega við. Hún áttaði sig ekki á að þessi orð hennar um hina vondu menn sem hlaupast undan ábyrgð voru líka eins og klippt utan um fyrrverandi formann hennar Ólaf Ragnar Grímsson. Og pössuðu reyndar mun betur við hann því hann var jú formaður á þessum tíma sem skuldirnar urðu til, ólíkt hinum, og bar því helsta ábyrgð á sukkinu. Enginn innti hana eftir því hvað þessi yfirlýsing hennar segði um Ólaf Ragnar Grímsson.