Framfarir í vísindum eiga stóran þátt í þeirri velmegun og því bætta heilsufari sem við njótum. En það eru ekki allir jafnánægðir með framfarir í vísindum og tækni. Umhverfisverndarsinnar hafa til dæmis lengi haft horn í síðu tækniframfara þótt þess séu afar mörg dæmi að tækninýjungar leysi náttúruauðlindir af hólmi. Áburður og erfðabætt ræktun minnka þörf fyrir land undir landbúnað, ljósleiðarinn minnkar þörfina fyrir kopar, ljósaolía leysti hvalalýsi af hólmi, kol komu í stað timburs og svo mætti lengi telja.
En það eru ekki aðeins beinar tækniframfarir sem verða fyrir aðkasti. Tilraunir eru gerðar til að trufla starf vísindamanna og hafa áhrif á niðurstöðu þeirra. Eða þá til að hafa áhrif á skoðun almennings á niðurstöðunum. Í nýrri bók frá Cato Institute Silencing Science rekja Steven Milloy og Michael Gough yfir tuttugu dæmi um það hvernig ýmsir aðilar hafa reynt að koma í veg fyrir vísindarannsóknir og rökræður um vísindaleg álitaefni. Bókin kostar aðeins $8.00 hjá Cato stofnuninni.
Á morgun fer fram kosning til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og eins og undanfarin ár keppa þær Vaka og Röskva um að komast að kjötkötlunum. Fylkingarnar leggja gjarnan áherslu á svipuð mál og er ofarlega á blaði hjá báðum að sjá til þess að skattgreiðendur leggi sem mest fé til Háskólans og þeirra sem þar dvelja. Þó þetta sameini fylkingarnar er þó að minnsta kosti einn stór munur á þeim. Vaka vill að í Stúdentaráði séu þeir stúdentar einir sem vilja vera í Stúdentaráði en Röskva krefst þess að allir hinir séu það líka. Því má segja að bæði fylgjendur og andstæðingar félagafrelsis finni eitthvað við sitt hæfi á kjörseðlunum á morgun.