Í Morgunblaðinu í gær var mikil umfjöllun um svonefnda þenslu í íslenska hagkerfinu. Þar var rætt við nokkra hagfræðinga og þeir spurðir hvað sé til ráða. Már Guðmundsson hagfræðingur í Seðlabanka Íslands leggur til að annaðhvort verði gripið til lægri útgjalda eða hærri skatta. Már var raunar efnahagsráðgjafi fjármálaráðherrans Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir nokkrum árum en þá var síðara ráðið brúkað af kappi. Skattar voru hækkaðir linnulítið en ríkisútgjöld hækkuðu svo hressilega að það met verður seint slegið.
Með þessa reynslu í farteskinu kemur á óvart að Már skuli leggja skattahækkanir og samdrátt í ríkisútgjöldum að jöfnu. Skattahækkanir eru ekki gott ráð gegn þenslu heldur miklu fremur sérsmíðað vopn gegn hagvexti. Auknar tekjur ríkisins við skattahækkanir eiga svo til að dreifast í ýmis verkefni önnur en að greiða niður skuldir. Af handahófi má nefna að á dögum Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu hafði ráðherrann þrjá aðstoðarmenn og ráðgjafa á kostnað skattgreiðenda enda sjálfsagt rétt metið að varlegt sé að treysta einungis á Mörð Árnason, Svanfríði Jónasdóttur eða Má Guðmundsson.
Víða um land bjóða sveitarfélög út sorphirðu enda eru víða jarðverktakar og jafnvel sérhæfð sorphirðufyrirtæki í eigu einstaklinga sem geta sinnt sorphirðu frá heimilum og fyrirtækjum. En ekki í Reykjavík. Sorphirðan í Reykjavík er rekin eins og hvert annað ráðstjórnarapparat. Það eru með öðrum orðum opinberir starfsmenn sem sækja sorpið heim til borgarbúa á bílum í eigu borgarinnar. Töluverð samkeppni er á milli fyrirtækja sem bjóða gámaþjónustu og sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu enda bjóða nágrannasveitarfélögin þessa starfsemi út. Það er því ekkert sem hindrar útboð á þessari þjónustu í Reykjavík. Nema sósíalískt þenkjandi borgarstjórn.
Í Degi á föstudaginn var rætt við Pétur Ottesen stjórnarformann Sorpurðunar Vesturlands um væntanlega sorpuðrun í landi Fíflholts en umhverfismat vegna urðunarinnar hefur ítrekar verið kært til umhverfisráðuneytisins og tafið málið von úr viti en í sumar verða liðin þrjú ár frá því jörðin Fíflholt var keypt í þeim tilgangi að urða þar sorp af Vesturlandi. Umhverfismatið hefur semsé tafið framfarir í umhverfismálum Vesturlands um þrjú ár! Um það segir Pétur: Það er alveg skelfilegt og hlýtur að vekja fólk til umhugsunar um hvort að það reglugerðarfargan sem ríkið er búið að byggja upp, sé ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þetta kallar líka að mínu mati á naflaskoðun á með hvaða hætti umhverfismat skuli vera framkvæmt og hvaða hlutir geti stöðvað af framfaraskref í stórkostlegum úrbótum umhverfismála heils kjördæmis.
Þess ber svo að geta að Sorpurðun Vesturlands mun auðvitað bjóða út reksturinn á urðunarstaðnum.