Mánudagur 15. febrúar 1999

46. tbl. 3. árg.

Án þess að hér sé ætlunin að gera lítið úr hlut íslenska ríkissjónvarpsins þá eru skandínavískar sjónvarpsstöðvar þær leiðinlegustu norðan Alpafjalla. Það kom því ýmsum á óvart þegar þær sakir voru bornar á Landssímann í síðustu viku að hann hefði stolist til að senda dagskrá þessara stöðva inn á íslensk heimili. Hvernig fara menn að því að stela því sem er verra en ekkert?

Landsbankinn sendi lesendum Morgunblaðsins kynningarrit um ný húsnæðislán bankans um helgina. Í ritinu er m.a. kynnt hvernig kaupendur húsnæðis sem hafa 150.000 króna mánaðartekjur geta náð rúmum 4 milljónum króna út úr vaxtabótakerfinu í stað 2 milljóna króna ef þeir taka húsbréfalán. Þetta byggist á því að vextir af lánum Landsbankans eru greiddir hraðar en af húsbréfalánum og afborganir hægar. En vaxtabætur eru eðli málsins samkvæmt greiddar af vöxtum. Það er auðvitað skemmtilegt að það er ríkisbanki sem býður almenningi að spila svona á bótakerfi ríkisins. Það er hins vegar með ólíkindum að lífeyrissjóðir skuli ekki hafa boðið félögum sínum upp á lán með slíkum kjörum, en lífeyrissjóðirnir hafa lánað félögum sínum fyrir húsnæði í áratugi. En lífeyrissjóðirnir eru sem kunnugt er ekki til fyrir fólkið heldur fólkið fyrir sjóðina og verkalýðsrekendurna sem stjórna þeim. Enda þarf að skylda fólk til að greiða í þá. Öðruvísi fengju verkalýðsrekendurnir enga peninga til að kaupa sér stjórnarsæti í fyrirtækjum.

Ástsæll leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong Il, verður 57 ára gamall á morgun. Af því tilefni mun þessi foringi jafnaðarmanna halda sér látlaust afmælisboð, sem samkvæmt fréttum frá Suður-Kóreu mun ekki kosta nema svo sem eins og sjö milljarða íslenskra króna. Fyrir þetta fé væri hægt að bæta úr um þriðjungi þess matarskorts sem er í landinu, en miðstýrt stjórnarfar Kim-feðganna og andúð þeirra á frjálsum markaðsöflum hefur kostað mikla hungursneyð í landinu. Landið er líklega hið lokaðasta í heimi, þannig að erfitt er að meta hinar skelfilegu afleiðingar þessara stjórnarhátta, en þó er talið að um 10% af þeim 24 milljónum, sem byggðu landið fyrir nokkrum árum, hafi látið lífið í þessari heimatilbúnu hungursneyð.