Eftir örfáa mánuði mun þjóðin velja sér 63 einstaklinga til setu á Alþingi næstu fjögur ár. Flestir kunna það eitt að eyða fjármunum þjóðarinnar í ýmislegt sem hefur ýmist afar lítið eða ekkert með almannahagsmuni að gera. Vitaskuld munu loforð þeirra vera nokkuð mismunandi eftir því hvar viðkomandi þingsætiseltiskinn skipa sér í flokk og í hvaða kjördæmi þeir fara fram. Eitt af því fáa sem mun þó sameina þá flesta er barátta gegn neysluvenjum ákveðins utangarðshóps.
Það gerist með reglubundnum hætti að einhverjir þingmenn kjósa að vekja máls á því að nú þurfi enn og aftur að herða baráttuna gegn fíkniefnum. Fyrir kosningar er leitun að þeim frambjóðanda sem ekki notar tækifærið til að leggja sérstaka áherslu á hversu mjög honum er annt um að berjast gegn þessari óáran. Ekki kom það því nokkrum manni á óvart að Ágúst Einarsson, sérfræðingur í flokkaflakki, taldi rétt að þyngja mjög refsingar við afbrotum af þessu tagi. Þessi afstaða hans er hins vegar því miður mikið fagnaðarefni fyrir þá sem stunda sölu og dreifingu fíkniefna.
Það kann að hljóma mótsagnarkennt að þeir sem stunda fíkniefnaviðskipti sjái litla ógn í þeirri ímyndarverkfræði sem Ágúst og aðrir stjórnmálamenn stunda í akkorði rétt fyrir kosningar. Reynslan um heim allan sýnir hins vegar berlega, að hagur fíkniefnamiðlara vænkast í hvert sinn sem tillögur af þessu tagi eru samþykktar sem lög. Þeir kynnu hins vegar að taka öllum hugmyndum um lögleyfingu fíkniefna misjafnlega, því í þeim hugmyndum er fall þeirra falið.
Það þarf ekki að tala í kennisetningum eða vísa til ímyndaðra aðstæðna til að sýna hvernig þetta má eiga sér stað. Nákvæmlega sama gerðist á bannárunum, fyrir utan það eitt að þá var það áfengi sem var bannað sem neysluvara. Um leið og áfengið var bannað vænkaðist hagur þeirra sem voru tilbúnir að ganga á skjön við bannlögin, enda hækkaði verð áfengis mjög vegna áhættunnar við gerð þess, dreifingu og sölu. Fylgikvillarnir bitnuðu fyrst og fremst á löghlýðnu fólki; styrjöld geisaði milli mismunandi áfengissala sem almenningur fór ekki varhluta af, gæði vínsins voru oft á tíðum léleg ef ekki hættuleg heilsu manna, almenningur var skattlagður gríðarlega til að standa straum af stríði yfirvalda við áfengissalana og svo má lengi áfram telja. Hér er verið að vísa til hvernig þetta átti sér stað í Bandaríkjunum, en engin eðlismunur var á þessari sögu milli landa. Alls staðar högnuðust þeir sem brutu lögin og þeim mun meira sem yfirvöld hertu aðgerðir. Þessu lauk ekki fyrr en áfengi var orðið lögleyft að nýju. Síðan þá hafa sölu- og dreifingaraðilar áfengis ekki verið til vandræða. Einn angi af þessu er bjórbannið alræmda hér á landi. Dettur einhverjum í hug að ýmsum sjómönnum (og öðrum sem smygluðu bjór til landsins) hafi ekki þótt það verra að bjórinn skyldi leyfður að nýju? Þeir urðu augljóslega fyrir miklu tekjutapi vegna þess gjörnings. Það er þó kannski huggun harmi gegn fyrir smyglarana að yfirvöld verðleggja áfengi hér á landi svo hátt að ennþá telst hagnaðarvon í því að smygla áfengi til landsins. Þá eru ónefndir landabruggararnir, en tilvist þeirra er eingöngu háu áfengisverði að kenna.
Nú á dögum er það nákvæmlega sama að gerast varðandi fíkniefni. Þeir hagnast sem brjóta lögin en almenningur stendur straum af sívaxandi kostnaði við að heyja vonlaust stríð yfirvalda gegn fíkniefnum auk annarra óæskilegra afleiðinga sem bannið við fíkniefnum hefur í för með sér.
Ágúst Einarsson og aðrir sem berjast gegn fíkniefnasölum með því að kalla á þyngri viðurlög þurfa því ekki að velkjast í neinum vafa um það, að þessir sömu fíkniefnasalar líta á þá sem bandamenn sína. Ágúst og hinir tryggja áframhaldandi ofsagróða, sem fylgir ólöglegum fíkniefnaviðskiptum, með tillögum á borð við þyngri refsingar. Hertar refsingar auka einungis áhættuna og þar með hagnaðarvonina. Fíkniefnasölunum stafar hins vegar raunveruleg ógn af þeim smáa hópi sem telur að lögleyfa beri fíkniefni, því slík lögleyfing eyðir áhættunni og þar með ofsagróðanum. Fíkniefnasalarnir geta sofið rótt. Fátt bendir til þess að áherslur hérlendis verði aðrar í bráð en að herða refsingar og sennilegast munu breytingar í þessum efnum fylgja sama mynstri og áður í sögu Íslands; þær koma erlendis frá.