Föstudagur 12. febrúar 1999

43. tbl. 3. árg.

Hugtakið sjálfbær þróun er mikið notað um þessar mundir. Líklega eru þó fáir ef nokkrir sem treysta sér til að skýra hvað átt er við með sjálfbærri þróun. En það er allt í lagi. Stjórnmálaflokka og umhverfisverndarsamtök vantar alltaf innantóm glamuryrði í stefnuskrár sínar. Staðardagskrá 21 er einnig fyrirbæri sem æ oftar heyrist nefnt. Enginn hefur þó fram að þessu gert sér far um að útskýra hvað þarna er á ferðinni þótt sveitarfélög séu farin að ausa skattfé í málefnið. Flestir gera því sennilega ráð fyrir að þeir hafi misst af staðardagskrám 1 til 20. Guðlaugur Bergmann er nýráðinn verkefnastjóri Staðardagskrár 21 í Snæfellsbæ og af því tilefni er rætt við hann í DV í gær. Þar gerir Guðlaugur lofsverða tilraun til að útskýra hvað Staðardagskrá 21 er og segir: „Það er nauðsynlegt að að undirstrika að Staðardagskrá 21 er ætlað að vera heildaráætlun um þróun samfélagsins.“

Til frekari útskýringa bætir Guðlaugur við: „Dagskrá 21 eða Agenda 21 þýðir dagskipun eða áætlun fyrir tuttugustu og fyrstu öldina. Hún er áætlun sem 179 þjóðir, þar á meðal Ísland, urðu ásáttar um að gera á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 um umhverfi og þróun. Dagskrá 21 er áætlun fyrir hverja þjóð fyrir sig um það hvernig hún kemst nær því að vera sjálfbær. Þetta miðar allt að því að samfélögin nálgist það að verða sjálfbær, nálgist sem sagt markmiðið sjálfbæra þróun sem var skilgreind af hinni svokölluðu Brundtland nefnd 1987.“

Þar hafið þið það. Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um samfélagið. Hvorki meira né minna. Staðardagskrá 21 (eða Dagskrá 21) er einnig Agenda 21. Einmitt það. Staðardagskrá 21 stefnir auðvitað að sjálfbærri þróun. En um sjálfbæra þróun getið þið lesið í Brundtland skýrslunni. Þ.e.a.s. ef þið kunnið hana ekki utanbókar. En Staðardagskrá 21 er líka um umhverfi og þróun. Því má ekki gleyma. Staðardagskrá samþykkt af 179 þjóðum. Í Ríó. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. En frábært. En munið að Staðardagskrá 21 er dagskipun. Fyrir næstu öldina. Sem er öld númer 21. Skýrara getur þetta ekki verið…