Ágúst Einarsson þingmaður Þjóðvaka hefur lagt til að þeir sem verja fé sínu til listaverkakaupa fái skattaafslátt en hinir sem hafa aðeins efni á að kaupa bensín á bílinn sinn verði teknir sérstaklega fyrir og skattpíndir enn frekar með umhverfissköttum. Ágúst hefur einnig verið ötull baráttumaður fyrir sérstakri skattheimtu á sjávarútveg en þeim skatti munu ekki aðeins fiskverkafólk og sjómenn deila með útgerðarmönnum heldur einnig landmenn allir með verri lífskjörum. Þá vill Ágúst hækka tryggingagjald fyrirtækja en tryggingagjaldið er launaskattur. Laun munu því lækka ef tillögur Ágústs ná fram að ganga. Og ekki nóg með það heldur er Ágúst partur af þeim stjórnmálaflokki sem hefur mestar áhyggjur af misskiptingunni í þjóðfélaginu. Þjóðvaki hefur mestar áhyggjur af því að atorkusamt fólk leggi hart að sér til að koma arðbærum fyrirtækjum á legg eða vinni mikið til að koma þaki yfir höfuðið.
Þessar hugmyndir sínar ítrekaði Ágúst í nýafstaðinni prófkjörbaráttu á Reykjanesi. Öllum mætti því vera ljóst að Ágúst vill nota ríkisvaldið til að stýra hegðun fólks og skipta sér af því í hvað fólk eyðir sjálfsaflafé sínu. Öllum nema Óla Birni Kárasyni ritstjóra DV. Óli Björn notar heilan leiðara á mánudaginn til að hossa Ágústi fyrir þor til að benda á galla tekjuskattskerfisins og fyrir skynsamlegar og nytsamar tillögur í skattamálum. Telur ritstjórinn að Ágúst sé einn af fáum stjórnmálamönnum sem átti sig á því að það sé óæskilegt að stýra hegðun fólks með skattkerfinu!
Stúdentablaðið heitir blað sem gefið er út á kostnað stúdenta að þeim forspurðum. Blaðið er heldur lítið spennandi aflestrar og samanstendur af furðulegri blöndu af gömlum kjaftasögum úr öllum áttum og hinu og þessu sem snertir Háskóla Íslands misjafnlega mikið. Á blaðinu hefur löngum verið vinstri slagsíða, en sú staðreynd og lítt spennandi efni blaðsins væri svo sem ekkert til að kvarta undan nema vegna þess að Stúdentaráð styrkir blaðið og að stúdentar eru neyddir til að greiða háar upphæðir til þess ráðs.
Í grein í blaðinu að þessu sinni ritar Kári Sigurðsson hagfræðinemi um sóun fjármuna hjá Stúdentaráði og kemur þar fram að rekstrarkostnaður skrifstofu ráðsins sé óeðlilega hár, að milljónum hafi verið kastað í útgáfu Stúdentablaðsins og að endurdreifing fjár til deildarfélaga sé afar umdeilanleg, þar sem meira en helmingi munar á framlögum til einstakra deilda sé miðað við höfðatölu.
Skýringarinnar á þessari meðferð fjármuna stúdenta þarf vitaskuld ekki að leita lengi. Hún er sú að menntamálaráðherra hefur tryggt Stúdentaráði skyldugreiðslur frá stúdentum. Gilda því sömu lögmál og ævinlega þegar svo háttar til, enda hafa þeir sem sinna rekstrinum ekki mikinn hag af því að gæta fjárins vel. Eina lausnin á þessu vandamáli er að menntamálaráðuneytið endurskoði afstöðu sína til skyldugreiðslu stúdenta til ráðsins og tryggi þeim frelsi til að standa utan þess sýnist þeim svo. Þá fengju forsvarsmenn Stúdentaráðs eina aðhaldið sem dugar til að þeir sinni störfum sínum.