Þriðjudagur 9. febrúar 1999

40. tbl. 3. árg.

Því er oft haldið fram að leiðin að bættri menntun sé aukin útgjöld til menntamála. Þá reikna menn gjarna útgjöld á nemanda, fjölda nemenda á kennara og laun kennara. Allt þykja þetta stundum góðar mælistikur á gæði náms og væntanlegan árangur nemendanna. Ekki er Ísland einsdæmi að þessu leyti frekar en öðru og heyrast sömu sjónarmið meðal annars í Bandaríkjunum.

Walter Williams hagfræðingur gerir þessi viðhorf að umtalsefni í nýlegum pistli og kannar hvort þetta eigi við rök að styðjast. Ber hann saman ólíkar borgir og svæði í Bandaríkjunum þar sem mismiklum fjármunum er varið til menntamála. Niðurstaða hans er sú að ekki sé fylgni á milli útgjalda og árangurs nemenda og er hún m.a.s. svo skýr að þeir sem mestu eyða á nemanda lenda nánast í neðsta sæti yfir landið. Þótt fylgnin sé vitaskuld ekki öll með svo öfugum formerkjum er niðurstaðan skýr og umhugsunarverð og svo virðist sem eitthvað allt annað en útgjöld ráði frammistöðu nemenda.

Hér á landi er líklegt að vandi skólakerfisins sé miðstýring þess og skortur á samkeppni. Samkeppni virðist raunar lengi vel hafa verið bannorð í skólakerfinu. Viðhorf jafnaðarmennskunnar hafa ráðið mestu og öllum nemendum hefur verið boðið upp á sama námsefnið í eins skólum í eigu sama aðilans – ríkisins. Nýlega hafa verið stigin varfærin skref sem kunna á endanum að breyta þessu, þó enn sé of snemmt að spá fyrir um það. Hins vegar er auðvelt að spá því hvers kyns menntun nemendum verður boðið upp á í framtíðinni verði engu breytt og hið opinbera áfram látið reka skólana og miðstýra öllu í menntakerfinu.

Í dag opnar Björn Bjarnason sýningu sem efnt er til í þeim tilgangi að kynna Halldór Laxness og verk hans erlendis. Fyrsta sýningin er haldin nú í Varsjá en stefnt er að því að hún fari svo sigurför um heiminn. Vonandi taka Pólverjar þjóðskáldinu opnum örmum en til að auka líkurnar á því getur Björn brugðið á það ráð að lesa upp eitthvað sem Laxness skrifaði og kann að snerta Pólverja. Þar mætti til dæmis hugsa sér grein sem Halldór Laxness skrifaði í Þjóðviljann 27. september 1939, mánuði eftir samninga Stalíns og Hitlers og tíu dögum eftir að Sovétmenn réðust inn í Pólland, en þar skrifaði Nóbelsskáldið meðal annars:

„Þrem vikum eftir undirskrift griðasáttmálans er bolsévisminn á bökkum Veiksel; fimtán miljónir manna í lénstímaríki, sem frægt var fyrir mestu bændaörbirgð á Vesturlöndum, hefur árekstralítið og án verulegra blóðsúthellínga hoppað inn í ráðstjórnarskipulag verkamanna og bænda. Ég sé að auðvaldssinnuð blöð tala um, að bolsévíkar um allan heim standi sem steini lostnir yfir þessu hneyksli. Mér er slíkur hugsanagángur ekki með öllu ljós. Ég skil ekki almennilega, hvernig bolsévíkar ættu að sjá nokkurt hneyksli í því, að 15 miljónir manna eru þegjandi og hljóðalaust innlimaðir undir bolsévismann. Mér skilst, að slíkt ætti að vera bolsévíkum fremur fagnaðarefni en ástæða til hneykslunar.“