Mánudagur 8. febrúar 1999

39. tbl. 3. árg.

Það skiptast á skin og skúrir. Fyrir örfáum mánuðum fagnaði Sighvatur Björgvinsson sigri sínum í þingkosningunum í Þýskalandi og samgladdist Vefþjóðviljinn honum að sjálfsögðu. En nú hallar undan fæti. Í gærkvöldi missti Sighvatur meirihluta sinn í Hessen. Svekkjandi.

Sveitarstjórnarmenn hafa boðið sig fram í stórum hópum í hinum ýmsu prófkjörum að undanförnu. Þeir hafa nær allir kolfallið. Al Þorsteinsson borgarfulltrúi hjá Framsókn í Reykjavík, Ólafur sveitarstjóri hjá Sjálfstæðismönnum á Austurlandi, Árni Þór Sigurðsson hjá Þjóðvakafylkingunni í Reykjavík, Lúðvík Geirsson, Valþór Hlöðversson og Magnús Jón Árnason hjá Þjóðvakafylkingunni í Reykjanesi og Jakob Björnsson hjá Framsókn á Norðurlandi. Sá eini sem sloppið hefur fyrir horn var Gunnar Birgisson, leiðtogi Sjálfstæðismanna í næstfjölmennasta sveitarfélagi landsins, þar sem hefur verið mikil uppbygging og uppgangur að undanförnu.

Ef til vill er þetta tilviljun og sveitarstjórnarmenn bara óheppnir um þessar mundir. Vefþjóðviljinn vill þó leyfa sér að benda á að sveitarstjórnir vítt og breytt um landið hafa sýnt einstakt ábyrgðarleysi við fjármálastjórn á undanförnum árum. Sveitarfélögin er mjög skuldsett eftir látlausan hallarekstur frá 1990. Sveitarstjórnarmenn eru orðnir frægir að endemum fyrir eyðslusemi, skattahækkanir og skuldasöfnun. Kannski kunna kjósendur í prófkjörum ekki að meta slíka frammistöðu.

Þrátt fyrir að hinn sjálfskipaði siðapostuli Ágúst Einarsson hafi varið svo miklu fé til prófkjörsbaráttu sinnar að Guðmundur Árni Stefánsson kveinkaði sér undan því og Fimleikafélag Hafnarfjarðar sá sér ekki fært að taka við því fé sem frambjóðandinn bar á félagið, náði Ágúst aðeins 5. sætinu í prófkjöri samfylkingarinnar. Vafalaust hlakkar í einhverjum að kvótagróði siðapostulans sjálfskipaða hafi ekki dugað til að sigra Guðmund Árna Stefánsson sem hrökklaðist úr ráðherrastóli vegna spillaringarmála.