Helgarsprokið 7. febrúar 1999

38. tbl. 3. árg.

smoke.jpg (7046 bytes)
smoke.jpg (7046 bytes)

Ofstopi þeirra, sem hvorki reykja né vilja leyfa öðrum að gera það, fer mjög vaxandi. Nú hefur heilbrigðisráðherra gefið út reglugerð sem er ætlað að gera mönnum afar erfitt að reykja við vinnu sína. Reykingamenn skulu samkvæmt henni verða hálfgerðir útlagar á vinnustaðnum, fyrirlitnir af öllu góða, heilbrigða og fríska fólkinu sem skal sko fá að vera í friði fyrir reyknum. „Fólk á rétt til hreins lofts“ er nýjasta upphrópun nútímalegu stjórnmálamannanna sem vilja banna lesti og óhollustu. Hvort sem fólk vill þetta hreina loft eða ekki.

Hin nýja reglugerð heilbrigðisráðherra fyrirskipar nokkurn veginn að enginn megi reykja á vinnustað ef hugsanlegt er að nokkur annar verði þess var. Starfsmenn mega ekki einu sinni semja sín á milli um aðra tilhögun. Sá sem vill reykja á vinnustað getur einungis gert það ef hann hefur vinnuaðstöðu sína í sérstöku herbergi og heilbrigðisráðherra hefur jafnvel bannað að aðrir komi inn til hans og reyki þar. Þó starfsmaðurinn hafi ekkert á móti því, hefur Ingibjörg Pálmadóttir bannað það að viðlagðri ákæru.

Hér er ekki einungis skelfileg forræðishyggja heldur einnig alvarlegur misskilningur á hlutverki og heimildum ríkisins. Það verður að teljast mjög vafasamt að heilbrigðisráðherra hafi nokkurt vald til að banna húseiganda (í þessu tilfelli atvinnurekandanum) að leyfa notkun tiltekinnar löglegrar vöru í húsum sínum. Atvinnurekandinn hlýtur að ráða því hvort heimilt er að reykja á vinnustað. Sá sem ræður sig til starfa hjá honum getur svo kynnt sér fyrirfram hvaða reglur atvinnurekandinn hefur sett. Um slíkar reglur má svo að að sjálfsögðu semja í frjálsum samningum.

Þó Ingibjörg Pálmadóttir telji víst að næstum allir vilji vera lausir við reykingar annarra færir það henni ekkert vald til að skipta sér af húsreglum í fyrirtækjum. Menn verða að átta sig á því að enginn mun neyddur til að starfa hjá nokkru fyrirtæki nema ef vera skyldi hjá bílnúmeraplötuverkstæði á Suðurlandi. Sá sem ræður sig til fyrirtækis þar sem reykingar starfsfólks eru leyfðar hefur einfaldlega tekið þann kost að leiða tóbaksreyk í vinnutíma hjá sér og sætta sig við hann.

Það er sjálfsagt að lofa það sem vel er gert. Vefþjóðviljinn er sjaldan sammála Heimi Má Péturssyni og það kom honum því ánægjulega á óvart þegar Heimir mótmælti þessari reglugerð harðlega í viðtali á útvarpsstöðinni Bylgjunni í síðustu viku. Merkilegt að framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins sé eini maðurinn sem risið hefur upp til varnar gegn forræðishyggjumönnum í þessu máli.