Margir eru furðu lostnir yfir ákvörðun Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, kvennalistakonu, um að hætta við að hætta eins og flestir fréttamenn hafa orðað það með glettni í augum. Þótt ekki væri það ýkja trúverðugt, sagðist Guðný byggja ákvörðun sína um að hætta á prinsippi – að hún hefði ekki fengið það sem hún bað um, sumsé fyrsta sætið eða verið hafnað eins og það kallast í daglegu tali. Dylgjur Guðnýjar um svik og óheiðarlega kosningabaráttu, auk þessa skyndilega brotthlaups, áttu þannig drjúgan þátt í að hrista gleðivímuna af samfylkingarmönnum, sem loks hafði tekist að gersigra í eigin prófkjöri og töldu sig stefna hraðbyri á meirihlutastjórn eftir kosningar. Upphlaup Guðnýjar var því heldur óþægileg áminning um vandræði og sundurlyndi hinna meintu samflokksmanna, veruleikann að baki slagorðunum, kossunum og bjórnum.
Þar sem um prinsippákvörðun var að ræða kom auðvitað mjög á óvart þegar Guðný hætti við að hætta enda umskiptin vægast sagt þversagnakennd. Nú voru það ekki hin háleitu prinsipp sem réðu för heldur hinn óskilgreindi fjöldi sem beinlínis þrýsti hinum fallna leiðtoga aftur niður í 8. sætið líkt og þyngdaraflið. Reyndist sá togkraftur siðferðisþreki og prinsippum þingkonunnar um megn. Að þingmenn láti bugast svona af ytri þrýstingi og falli allur ketill í eld þegar að þeim er sótt er auðvitað nokkurt áhyggjuefni.
Þótt flestir kími yfir hinum mótsagnakennda málatilbúnaði Guðnýjar má þó nefna henni til málsbóta að ef til vill var stuðningur við hana meiri í virðist við fyrstu sýn. Í kosningabaráttu samfylkingarinnar var áberandi hve illa áróðurssmölum vinstrihjarðarinnar gekk að muna nafn hinnar knáu þingkonu. Var hún ýmist kölluð Guðný Guðbjörnsdóttir eða Guðný Guðbjarnardóttir og jafnvel Guðjónsdóttir í heilsíðuaulýsingu í Morgunblaðinu. Þetta kann að hafa valdið misskilningi og ekki er loku fyrir það skotið að þegar talið var upp úr kössunum hafi atkvæði skiptst á þessar þrjár Guðnýjar, sem ætla mátti að væru í framboði. Þegar fylginu er slegið saman hlaut Guðný Guðjó . afsakið Guðbjörnsdóttir ef til vill betri kosningu en talið var í fyrstu og því alveg óþarft að skammast sín fyrir útreiðina, hvað þá hætta í pólitík.
Í dag eru 88 ár liðin frá fæðingu Ronalds Reagans, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Í íslenskum fjölmiðlum er oft minnst á forsetatíð Reagans og af mjög misjafnri þekkingu. Ýmsar bábiljur eru þar algengar og um nokkrar þeirra fjallaði Vefþjóðviljinn fyrir ári. Í tilefni dagsins leyfir hann sér að benda áhugasömum á þá umfjöllun.