Sú snjalla hugmynd hefur nú komið upp hjá framkvæmdastjóra nokkrum úti á landsbyggðinni að ekki greiði allir landsmenn sama tekjuskattshlutfall. Framkvæmdastjórinn telur sem sagt að þeir sem búa á landsbyggðinni ættu að greiða lægri skatta og réttlætir hann þessa hugmynd með því að þetta geti dregið úr sókn fólks til suð-vesturhornsins. En hver borgar brúsann, eða er þetta eitt af hinum ókeypis ráðum vinstri manna? Nei, þetta er langt í frá ókeypis og þeir sem mundu borga fyrir þessa lægri skatta eru vitaskuld þeir sem búa í þéttbýlinu. Framkvæmdastjórinn bendir aðeins á björtu hliðina á málinu, en lét þess ekki getið að afleiðingar þess að fólk í dreifbýli mundi hafa hærri ráðstöfunartekjur vegna þessa en nú er, væru þær að fólk í þéttbýli hefði lægri ráðstöfunartekjur.
Hið sama er t.d. uppi á teningnum varðandi sjómannaafslátt, einhverjir greiða fyrir hann og hafa því minna á milli handanna en ella. Eins er greitt fyrir allan mögulegan stuðning sem landsbyggðin nýtur nú þegar og kallast byggðastefna á máli stjórnmálanna. En byggðastefnan svokallaða byggist á þeirri miður geðfelldu hugmynd að það sé hlutverk ríkisins að hafa áhrif á það hvar fólk velur sér búsetu.
Páll Halldórsson var formaður Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna árið 1989 þegar BHMR gerði kjarasamning við þáverandi fjármálaráðherra Ólaf Ragnar Grímsson eftir margra vikna harðvítugt verkfall. Atvinnumálaráðherra þessarar ríkisstjórnar var Jóhanna Sigurðardóttir (þótt hún láti þess ekki getið í kynningarefni sem hún sendir frá sér þessa dagana). Eins og menn muna sjálfsagt taldi Ólafur Ragnar samninginn tímamótasamning og samningsviðræðurnar félagslega upplifun. Nokkru síðar var samningurinn felldur úr gildi með bráðbirgðalögum þessarar sömu ríkisstjórnar. Páll Halldórsson og félagar töldu bráðabirgðalögin auðvitað algjör svik og nokkrir háskólamenn reistu ríkisstjórninni níðstöng við stjórnarráðið. Það kemur því ýmsum spánskt fyrir sjónir í sjónvarpsfréttum á dögunum að sjá Pál Halldórsson sitja á fundum með stuðningsmönnum atvinnumálaráðherrans sem stóð að bráðabirgðalögunum um árið.