Helgarsprokið 10. janúar 1999

10. tbl. 3. árg.

Í Brennunjálssögu segir frá því, að eitt sinn er Njáll Þorgeirsson kom heim af þingi var kominn á bæ hans maður sem hann kannaðist ekki við. Njáll spurði hver hann væri og kona hans sagði að þar væri nýr húskarl hans er Atli héti, hún hefði tekið við honum og myndi hann vera hinn duglegasti. Því svaraði Njáll þeim fleygu orðum, að ærið myndi Atli stórvirkur en eigi vissi hann hvort hann væri góðvirkur. All langt er því liðið frá því menn sáu fyrst að dugnaður og ágæti fara ekki alltaf saman. Ekki síst á það við þegar kemur að umsvifum hins opinbera. Þeim, sem fylgst hafa með störfum menntamálaráðherra undanfarnar vikur, hafa stundum komið þessi orð Njáls í hug.

Mörgum hefur lengi þótt Björn Bjarnason einna duglegastur íslenskra stjórnmálamanna og lengi hefur hann verið landsmönnum til mikils ágætis. Fyrst sem einn allra skeleggasti og besti talsmaður öruggra varna Íslands með þátttöku þess í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og á síðasta kjörtímabili þótti frjálslyndum mönnum mikið til um störf hans á Alþingi. Hann var einn öflugasti þingmaður þess kjörtímabils og talaði á þingi jafnan einarðlega fyrir sjónarmiðum frjálslyndra manna. Einnig þykir mörgum sem reglulegir pistlar sem hann birtir á heimasíðu sinni, séu með því besta sem skrifað er um íslensk stjórnmál. Því voru miklar vonir bundnar við Björn þegar hann varð menntamálaráðherra vorið 1995.

Ekki hefur farið milli mála undanfarin ár, að menntamálaráðherra er afar vinnusamur maður og hefur mikinn metnað fyrir hönd síns ráðuneytis. Um það vitnar margt, meðal annars sérstök skólastefna sem ráðherra beitti sér fyrir og vakti mikla hrifningu. En ekki eru öll verk hans jafn góð. Frá því Björn varð menntamálaráðherra hefur mörgum þótt ljóst, að hann hefði einsett sér að á kjörtímabilinu næðist það fram að hið opinbera kæmi að byggingu tónlistarhúss. Hins vegar hefur verið látið í veðri vaka að undirbúningur málsins hafi allur verið faglegur og að nákvæm greining á þörf fyrir tónlistarhúsið hafi farið fram áður en að ákvörðun um byggingu þess var tekin. Þannig segir menntamálaráðherra hinn 5. janúar síðastliðinn, þegar hann tilkynnti ákvörðun um byggingu tónlistahússins: „Fyrri áfanginn fólst í því, að nefnd undir formennsku Stefáns P. Eggertssonar verkfræðings greindi þörfina fyrir tónlistarhús.“

Þetta hljómar svo sem nógu faglega, en því miður var þess ekki látið getið að Stefán P. Eggertsson er formaður Samtaka um byggingar tónlistarhúss og getur því vægast sagt ekki talist heppilegasti maður landsins til að meta þörf fyrir tónlistarhús. Hann er raunar í hópi þeirra allra óheppilegustu og er með því ekki verið að leggja mat á verkfræðikunnáttu hans, heldur eingöngu það að hann er í forsvari fyrir helsta þrýstihóp vegna byggingar hússins. Það að menntamálaráðherra skuli velja formann Samtaka um byggingu tónlistarhúss til að meta þörfina fyrir byggingu þess  sýnir að enginn áhugi var á að gera hlutlausa úttekt á þörfinni. Húsið skyldi byggt hvað sem það kostaði.

Öðrum áfanganum lauk svo með skýrslu um nýtingar- og hagkvæmnismat, sem VSÓ ráðgjöf vann, en sami formaður Samtaka um byggingu tónlistarhúss var einnig verkefnisstjóri þeirrar vinnu. Ljóst er við lestur þeirrar skýrslu að kostnaðaráætlun er ekki nákvæm og margt sem leitt getur til hækkunar kostnaðar, þannig að óvissan er mikil. Hitt er verra að áætlanir um nýtingu hússins virðast mikið ofmat, en gert er ráð fyrir að í stóra tónleikasalinn einan komi á ári jafn margir að hlusta á tónlist og allir samanlagðir tónleikagestir á höfuðborgarsvæðinu eru sagðir hafa verið síðustu ár, eða um 200.000 manns. Þetta þýðir annaðhvort gífurlega aukinn áhuga landsmanna á tónlist á næstu árum – en hann þykir mikill fyrir – eða að engir tónleikar verða haldnir nema í hinu nýja húsi. Vonandi eru aðrar áætlanir í skýrslunni heldur raunhæfari en þessi, en þetta er að minnsta kosti ekki góðs viti og bendir ekki til að höfundar skýrslunnar leggi sig fram um raunhæfa áætlanagerð. Tilgangurinn er ef til vill frekar að ná fram heppilegri niðurstöðu fyrir fylgjendur byggingar tónlistarhúss.

Því hefur verið haldið fram að það borgi sig fyrir hið opinbera að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús saman. Í skýrslu VSÓ ráðgjafar kemur þó fram að ódýrasti kosturinn fyrir hið opinbera er að reisa tónlistarhús eitt og sér í Laugardal. Slík bygging mundi „aðeins“ kosta hið opinbera 2.397 milljónir króna, en aðrir möguleikar munu kosta hið opinbera a.m.k. 2.834 milljónir króna, en reikna má með að munurinn verði enn meiri enda líklegt að kostnaður hins opinbera vegna ráðstefnumiðstöðvarinnar verði meiri en nefnt er sem viðmiðun í skýrslunni. Þegar við bætist að mjög óeðlilegt er að hið opinbera sé að taka þátt í atvinnustarfsemi í samkeppni við fjölda einkaaðila með því að leggja stórfé í ráðstefnuhús sem nýtist aðallega fáum einkaaðilum. Þá er gagnrýnisvert í sjálfu sér að ódýrasti kosturinn, þ.e. bygging tónlistarhúss í Laugardag, skuli ekki valinn.

Skýringin á því að ódýrasta leiðin er ekki valin er líklega hin sama og að húsið skuli yfirleitt eiga að byggja, nefnilega sú að þeim, sem vilja láta byggja fjögur þúsund milljóna króna hús fyrir sjálfa sig, er ósárt um skattfé almennings. Skattgreiðendur skulu greiða fyrir húsið hvort sem þeim líkar betur eða verr.

En hver verður svo ávinningurinn af byggingu tónlistarhúss? Hann verður sá að ein hljómsveit á landinu, Sinfónían, mun geta spilað við betri aðstæður en nú, því nú eru aðstæður ekki „fullkomnar“ eins og þær munu eiga að verða. Aðrar hljómsveitir geta þegar spilað í mjög góðu húsnæði og nægir þar að nefna hið nýja tónlistarhús í Kópavogi. Ákvörðunin um að byggja tónlistarhús snýst því þegar öllu er á botninn hvolft um að láta hvert mannsbarn á landinu greiða tíu til fimmtán þúsund krónur fyrir að Sinfónían geti spilað í dálítið betra húsnæði en hún getur nú. Telja menn virkilega að landsmenn hafi ekkert betra við peningana að gera?