Fréttamenn hafa ýmsar leiðir til að hafa áhrif á það hverjar skoðanir fólk myndar sér á málum. Með ákvörðunum sínum um það, hvað birtist í fréttatímum og hvað ekki, gefa þeir oft til kynna hvað skiptir máli og hvað ekki. Síðast liðið vor leiddu fjölmiðlamenn t.d. hjá sér eins lengi og þeir gátu, hvernig borgarstjórnarframbjóðendurnir Helgi Hjörvar og Hrannar Arnarsson höfðu komið sínum málum. Nú hins vegar eru vikum saman flestallir fréttatímar lagðir undir beinar útsendingar frá jafn fánýtum hlutum og hugmyndum um prófkjörstilhögun vinstri manna í Reykjavík. Rétt eins og eilífar umræður vinstri manna um sjálfa sig skipti nokkru máli. En það er ekki bara það hvað er sagt sem skiptir máli. Það má einnig hafa áhrif með öðru móti. Tökum dæmi. Á dögunum sagði Ríkissjónvarpið frá umræðum á Bandaríkjaþingi um afbrot Williams Jeffersons Clintons forseta. Fréttaþulurinn kynnti fréttina stuttlega: Fulltrúadeild Bandaríkjaþings heldur áfram að ræða kvennamál Bandaríkjaforseta. – Ekki er furða þó ýmsum finnist sem Bandaríkjaþing fari offari gegn Clinton ef málin eru matreidd með þessum hætti. Auðvitað snýst málið ekki um hvort Clinton hafi verið eiginkonu sinni ótrúr. Það vita allir. Málið snýst um hugsanleg lögbrot hans, lygar fyrir rétti og stórfelld brot í embætti.
Ýmsum kann að finnast þetta smámál en engu að síður hafa fjölmiðlamenn margir, bæði á ljósvaka og prentmiðlum, sett málin svona upp. Og með þessum sakleysislegu kynningum fylgir oft sú kenning að bandarískir
kjósendur hafi kveðið upp dóm yfir þessum málum öllum, í síðustu þingkosningum í Bandaríkjunum. Fréttamenn halda því blákalt fram að repúblikanar hafi beðið ósigur í þeim kosningum. Það er rétt að gagnstætt vonum repúblikana minnkaði meirihluti þeirra í þingdeildunum tveimur. En fréttamenn gleyma því að repúblikanar fengu engu að síður mun fleiri atkvæði en demókratar. Mun fleiri Bandaríkjamenn kusu repúblikana en demókrata, hvort sem fréttamönnum líkar það betur eða verr.
Þegar stjórnmálamenn og þrýstihópar reyna að sannfæra skattgreiðendur um að þeir ættu að vera alsælir með að fá að borga meira í hin og þessi gæluverkefni er algengt að þeir beiti fyrir sig innihaldslausu orðskrúði. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði sig seka um þetta á dögunum þegar hún reyndi að verja þá ákvörðun sína að samþykkja að borgin taki þátt í byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Sagði hún að bygging hússins væri álíka mikilvæg og uppbygging Reykjavíkurhafnar á fyrstu áratugum aldarinnar. Hætt er við að þeim sem muna þá tíð er hér var engin höfn bregði við svona tal, enda hafði höfnin gífurlega þýðingu fyrir Reykjavík og raunar landið allt eftir að hún var byggð á öðrum áratug aldarinnar. Hafnargerðinni fylgdi ný tækni inn í landið, t.d. gufukrani og járnbrautalest, og henni fylgdi einnig mikil uppfylling sem gjörbreytti bænum og munaði mikið um Tryggvagötuna. En mest munaði auðvitað um að höfnin gerði það að verkum að skip þurftu ekki að liggja við akkeri úti á hafnarlegunni en gátu þess í stað lagst við bryggju. Í framhaldi af þessari byltingu í samgöngumálum fjölgaði skipakomum og mannlífið í hinni smáu Reykjavík varð allt annað.
Borgarstjóri virðist engan veginn gera sér grein fyrir því hvernig lífið var í Reykjavík upp úr síðustu aldamótum fyrst honum dettur í hug að ein húsbygging í dag – jafnvel þótt stór sé og dýr – jafnist á við gerð hafnarinnar á sínum tíma. En ef til vill er þetta skilningsleysi borgarstjóra ástæða þess að hann hefur fengið ákúrur fyrir að sinna ekki störfum þeim sem hann fær greitt fyrir frá Reykjavíkurhöfn. Það er jafnvel hugsanlegt að ef borgarstjóri sæti stundum fundi hafnarstjórnar eins og hann fær greitt fyrir en sleppti fundum sem ganga út á það eitt að auka útgjöld borgarinnar í gæluverkefni, þá mundi hann átta sig á því að ekki er hægt að bera saman gildi hafnar annars vegar og tónlistarhúss hins vegar fyrir Reykjavík. Tónlistarhúsi og útgjöldum hins opinbera til þeirrar byggingar verða að öðru leyti ekki gerð skil nú, en á morgun verður fjallað nánar um þetta mikilvæga mál.