Föstudagur 8. janúar 1999

8. tbl. 3. árg.

Kosningar nálgast. Til að sjá að svo er þarf ekki að líta á dagatal, það nægir að skoða loforð ríkisins um auknar framkvæmdir. Skyndilega eru áhyggjur af þenslu horfnar út í veður og vind og í staðinn er komin mikil framkvæmdagleði. Framkvæmdirnar eiga því miður að vera á kostnað skattgreiðenda, en það er víst í lagi á meðan þær kaupa atkvæði. Fyrir jól var samþykkt að auka niðurgreiðslur húshitunar með rafmagni, fyrr í vikunni var tilkynnt um rándýrt tónlistar- og ráðstefnuhús og í gær var því svo lýst yfir að byggð yrðu „menningarhús“ úti á landsbyggðinni. Enginn veit enn hvað húsin munu kosta, en þó viðurkenna menn að það verði umtalsvert. Menntamálaráðherra var ekki áhyggjufullur yfir því í gær og sagði m.a.: „…við erum að leggja okkar af mörkum…“ Hverjir þessir „við“ erum og hvað þeir leggja af mörkum kom ekki fram, en það skyldi þó ekki vera að þessir „við“ hefði í raun átt að vera „þið“ og það sem þeir leggja af mörkum sé stórfé í óbeina kosningabaráttu ríkisstjórnarflokkanna.

Menningarhúsin munu eiga að stuðla að því að fólk flytji ekki til Reykjavíkur og eru því hluti af byggðastefnu. Það er út af fyrir sig dálítið sérstakt að ríkisvaldið skuli leggja fé í það að halda fólki frá tilteknum sveitarfélögum í landinu, en ráðamenn hafa víst komist að því hvernig best sé að byggð dreifist um landið og því telja þeir réttlætanlegt að leggja skattfé í slík verkefni. Ein af ástæðum þess að byggja þarf þessi menningarhús mun vera að rannsóknir hafa sýnt að fólk vill heldur búa þar sem menning er til staðar en þar sem hún er ekki. Og fyrst verið er að reisa risastórt tónlistarhús í Reykjavík verður um leið að grípa til aðgerða svo allir flykkist ekki á mölina. Svona leiða ein útgjöld af sér önnur í eilífri baráttu ríkisins við að losa skattgreiðendur við sem flestar krónur.

„Lögsækjum Helga Hjörvar“ er fyrirsögn á grein eftir Mikael Torfason rithöfund í DV í gær. Mikael vísar m.a. í umræður fyrir síðustu kosningar þegar Helgi Hjörvar og Hrannar B. Arnarson voru ásakaðir um vafasama fortíð í fjármálum. Segir hann að þá hafi eftir kosningar verið talað um sigur lýðræðisins yfir rógnum, en í ljósi reynslunnar telur Mikael að hið gagnstæða hafi gerst. „Lýðræðið tapaði og sannleikurinn varð að rógi,“ segir hann og virðist taka framkomu Helga sérstaklega nærri sér þar sem Mikael  hafi sjálfur tekið þátt í að kjósa Helga í borgarstjórnarkosningunum.

Mikael bendir á að Helgi sé „óstöðvandi í svikunum“ þegar kemur að loforðum fyrir kosningar og telur að hann stefni að því að svíkja allt sem hann lofaði. Mikael rekur nokkur þeirra sviknu loforða Helga sem koma beint við hann og telur að Helgi eigi að borga mismuninn, þar á meðal útsvarshækkunina, hækkun dagvistargjaldanna, sundstaðanna og svo framvegis. Hann klykkir út með orðunum: „Þú laugst, Helgi Hjörvar, og ættir að skammast þín.“

Fleiri hækkanir Helga má nefna (þótt enginn treysti sér til að birta tæmandi lista, enda lengist hann hratt), t.d. hækkun á mengunar- og heilbrigðiseftirlitsgjaldi, sorphirðugjaldi, hundaeftirlitsgjaldi, sem og ýmsum þjónustugjöldum eins og til dæmis í heilsdagsskóla og þjónustuíbúðum aldraðra. Ósvífni Helga kom vel fram þegar hann fór að verja þessar hækkanir, því hann hélt því fram að aðeins væri verið að hækka gjöld til að fylgja verðlagsþróun. Þessu heldur hann fram þótt verðlagsþróun í landinu hafi sem kunnugt er verið sú, að verðbólga er og hefur um langt skeið verið um og innan við 2%, en gjaldahækkanir R-listans mælast jafnvel í tugum prósenta. Ef fjölmiðlar munu á næstu dögum fylgja fréttunum eftir og spyrja Helga hvernig þetta fari saman við málflutning hans, mun hann þá reyna að snúa sig út úr vandanum með því að segja að verðbólga í Reykjavík hafi verið miklu meiri en landsmeðaltölin segja til um???