Starfshópur á vegum hins opinbera er nú að kortleggja fíkniefnavandann í smáatriðum. Í framhaldi af því á svo að nýta þá fjármuni betur sem til þessa málaflokks fara í þeim tilgangi að ná meiri árangri í baráttunni við vandann. Sérstakt markmið er að stöðva innflutning fíkniefna. Ef aldrei fyrr hefði verið reynt að auka löggæslu, stöðva innflutning og svo framvegis, þá væri ef til vill ástæða til að ímynda sér að árangur gæti náðst nú, en sagan kennir okkur að útrýming fíkniefna er ekki svona einföld.
Í nýjasta tölublaði The Economist er fjallað um stríðið sem bandarísk yfirvöld heyja við fíkniefni (war on drugs) og sérstaklega litið til sex nýlegra bóka um þessi mál. Þar kemur fram að þrátt fyrir að útgjöld Bandaríkjastjórnar til að hefta útbreiðslu fíkniefna hafi vaxið úr 1 milljarði dollara árið 1980 í 30 milljarða á síðasta ári sé árangurinn á flestum mælikvörðum minni en enginn. Handtökur vegna fíkniefnamála hafa tvöfaldast, fangar vegna fíkniefnabrota eru nú áttfalt fleiri en þó er ekki erfiðara að verða sér úti um efnin en áður og unglingar sem neyta fíkniefna, eru því sem jafn margir og áður var.
Þegar þetta er borið saman við árangur áfengisbannsins í Bandaríkjunum á þriðja áratugi þessarar aldar þarf þetta ekki að koma á óvart. Innan tíu ára hafði það bann leitt til myndunar skipulagðrar glæpastarfsemi, mikillar spillingar í lögreglunni, en þrátt fyrir bannið hafði neysla sterkra drykkja tvöfaldast.
The Economist segir að þrátt fyrir að árangur hafi ekki orðið af banninu séu skiptar skoðanir um það hvað skuli til bragðs taka.Sumir telja að halda eigi fast í núverandi stefnu og reyna enn að herða tökin. Aðrir mæla með lögleyfingu veikari efnanna, enda ekkert sem sýni að þau leiði fólk út í harðari efni, ýmsir álíta að lausnin felist í aukinni áherslu á fræðslu og endurhæfingu, en margir eru þó þeirrar skoðunar að fræðsla og endurhæfing auk algerrar lögleyfingar sé eina raunhæfa og réttlætanlega leiðin. En hvað sem öðru líður ætti þó að vera ljóst að bannið mun ekki skila árangri.