Jóhanna Sigurðardóttir fékk löng viðtöl við sig (lesist: prófkjörsauglýsingar) á tveimur sjónvarpsstöðvum í gærkvöldi. Að þessu sinni var erindið það eitt að segja frá því að Jóhanna ætlaði ekki að þiggja 4. sæti (og áhrifaleysi) á hugsanlegum lista vinstri manna í Reykjavík en vildi frekar reyna að sækja hærra sæti í prófkjöri. Þetta sagði hún í afar löngu máli og sagðist brosandi ekki vilja láta afhenda sér sæti baráttulaust. Jóhanna hefði getað sparað sér og áhorfendum allt þvaðrið og svarað þessu í örstuttu máli: Ég er engin Ingibjörg Sólrún.
Þingvellir séu ævinlega eign íslensku þjóðarinnar, segir í lögum nr. 59/1928, að því er fram kemur í grein eftir Ingva Hrafn Óskarsson lögfræðing í DV síðastliðinn mánudag. Í greininni bendir Ingvi á að þótt í lögum um stjórn fiskveiða sé talað um sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum, þá þýði það ekki að Íslendingar eigi þessa nytjastofna í eignarréttarlegum skilningi. Þeir geta ekki ráðstafað nytjastofnunum eins og venjulegum eigum sínum. Ekki frekar en Þingvöllum, Þjóðleikhúsinu eða álíka eignum ef lög væru tekin bókstaflega.
Ingvi minnir á að í greinargerð með frumvarpi að núgildandi fiskveiðistjórnunarlögum útskýri löggjafinn hvað sé átt við með hugtakinu sameign íslensku þjóðarinnar: Með fyrsta málslið greinarinnar er minnt á mikilvægi þess að varðveita fullt forræði Íslendinga yfir [auðlindinni]. Jafnframt felst í þessu sú sjálfsagða stefnumörkun að markmiðið með stjórn fiskveiða er að nýta fiskistofnana til hagsbóta fyrir þjóðarheildina.
Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar hefur skilað meiri hagkvæmni en unnt er með nokkru öðru kerfi og þjóðin hefur öll notið góðs af því. Kerfið hefur átt drjúgan þátt í því góðæri sem við búum nú við. Ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaganna um sameign íslensku þjóðarinnar hefur því verið fylgt. Þeir sem halda öðru fram eru einfaldlega að misskilja lögin um stjórn fiskveiða.