Dómsmálaráðuneytið hefur sent fjölmiðlum bréf þar sem það minnir á að bann við auglýsingum á áfengum drykkjum sé enn í gildi þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn bjórframleiðanda en þar var fyrirtækið sýknað vegna áfengisauglýsingar á auglýsingaskilti. Eftir þessa niðurstöðu héraðsdóms hafa bjórauglýsingar verið algengar fjölmiðlum. Þessar auglýsingar hafa flestar verið án nokkurs dulbúnings en hann var algengur áður en dómurinn féll. Án þess þó að aðrir en embættismenn í ráðuneytum og áfengisvarnarráðum veiti því sérstaka athygli. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Verður fróðlegt að sjá hvort Hæstiréttur telur auglýsingabannið stangast á við málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Heilbrigðissjónarmið eru sögð ástæðan fyrir banni við auglýsingum á áfengi. Engu að síður benda ýmsar rannsóknir til þess að hófleg víndrykkja geti verið heilsusamleg og verið vörn gegn ýmsum kvillum. Með banni við áfengisauglýsingum er verið að banna vínframleiðendum að koma skilaboðum um þessa hollustu til neytenda. Í Bandaríkjunum er nú rekið dómsmál þar sem látið er reyna á það hvort vínframleiðendum sé heimilt að kynna neytendum þessa hollustu vínsins.
Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var sérstök fréttaskýring um jólahaldið í Vestmannaeyjum. Kom fram hjá fréttamanni ríkissjónvarpsins að ekkert markvert hefði gerst yfir hátíðirnar í Vestamannaeyjum. Ræddi hann svo við mann sem sat í bíl sínum á bryggjunni og horfði á fugla á haffletinum. Upplýsti maðurinn að þar væru á ferðinni endur og himbrimi. Er sjaldgæft að sjá þær tegundir hér, spurði fréttamaðurinn. Nei, svaraði maðurinn.
Sennilega hafa ekki allir sjónvarpsáhorfendur hafi áttað sig á því hvers vegna þessi fréttaskýring var send út. En það er þakkarvert að fréttastofan gleymdi því ekki yfir hátíðirnar að gera þeim áhorfendum til geðs sem hafa vanist því að fá daglegar fréttir af því að ekkert markvert hafi gerst. Það var líka vel til fundið að sleppa Samfylkingunni svona einu sinni og segja frekar frá jólahaldinu í Eyjum. En áhorfendur geta treyst því að Samfylkingin verður aftur komin á dagskrá hjá báðum fréttastofum sjónvarpstöðvanna strax í kvöld.