Hagfræðingar gera ráð fyrir því þegar þeir fjalla um efnahagsmál og gang markaðarins, að maðurinn sé skynsamur og að hann hugsi fyrst og fremst um eigin hag. Þessar forsendur hafa verið ýmsum þyrnir í auga, sérstaklega sú síðari, og hefur það oft verið vegna þess að þetta er gjarna túlkað þannig að allir séu alltaf að reyna að hámarka auð sinn. The Economist fjallaði um þetta efni fyrir um tveimur vikum og benti á að þessi skilningur væri ekki alls kostar réttur.
Þetta líkan hagfræðinga af mannlegri hegðun er vitaskuld einföldun eins og öll önnur líkön, en það hefur reynst býsna vel. Forsendan um að maðurinn hegði sér skynsamlega hefur haldið ágætlega, enda er með henni ekki gert ráð fyrir að hann geri aldrei mistök heldur einvörðungu að þau séu ekki kerfisbundin og síendurtekin.
Varðandi þá forsendu að fólk hugsi fyrst og fremst um sjálft sig þá þýðir hún ekki að fólk sé sífellt með hugann við að auðgast, því gert er ráð fyrir að fólk hafi áhuga á miklu fleiru en því. Hluti af þörfum eða óskum fólks getur til dæmis verið að aðrir hafi það gott. Og fólk er líka stundum ósérhlífið og óeigingjarnt ef það er að vonast eftir eða býst við samskonar framkomu annarra. Menn eru oft greiðviknir, en það er að hluta til af því að þeir vænta þess að njóta greiðvikni á móti.
The Economist bendir á að þjóðfélagið gengi því miður ekki upp ef gert væri ráð fyrir að allir vildu alltaf gera allt fyrir alla aðra, en aldrei þiggja neitt í staðinn. Ég skal gera þér stóran greiða, en ég fer fram á að þú endurgjaldir hann ekki.“ Nei, því miður, ég skal gera þér stóran greiða, en aðeins ef þú gerir ekkert fyrir mig í staðinn.” Þótt greiðasemi sé æskileg gæti þjóðfélag sem byggði á henni eingöngu ekki gengið upp og ekki hefur neitt komið í staðinn fyrir það líkan um manninn sem hagfræðin hefur stuðst við.
Þýðir þetta að við lifum í vondum heimi þar sem ekkert pláss er fyrir ósérhlífni? Nei, bæði er vitaskuld pláss fyrir ósérhlífni eins og fram kom hér að ofan, en heimurinn þarf heldur alls ekki að vera vondur þótt samskipti og viðskipti manna byggist að miklu leyti á því að hver hugsi aðallega um sig.
Adam Smith kom einna fyrstur auga á og útskýrði með skipulegum hætti hvernig sérhagsmunagæsla hvers og eins skapaði auðlegð þjóðanna. Hann taldi það nánast kraftaverk hvernig markaðurinn vinnur. Og vissulega er það næsta ótrúlegt hversu vel hann vinnur yfirleitt og hversu hratt og vel framleiðsluþættir og framleiðsluvörur komast í hagkvæmasta nýtingu þegar mönnum er leyft að eiga frjáls viðskipti sín á milli. En einmitt það hversu ótrúlegt það er hve vel markaðurinn vinnur veldur því að sumir hafa iðulega horn í síðu hans og trúa því ekki að fái hann að vera óáreittur þá muni það skila bestri niðurstöðu fyrir alla. Ferlið að framleiða einhvern hlut, t.d. kaffikönnu eða stílabók, allt frá því hugmyndin kemur upp og þar til búið er að þjálfa fólk, smíða verksmiðju, kaupa hráefni og koma framleiðslunni til neytenda, er svo flókið og óskiljanlegt, að enginn hefur yfirsýn yfir allt sem gera þarf. Þó er þetta leyst með auðveldum hætti í frjálsum viðskiptum, þar sem hver maður tekur að sér afmarkað hlutverk sem hann þekkir vel og hann lætur verðið leiðbeina sér við að taka réttar ákvarðanir.
Markaðskerfið, sem hægt er að lýsa með hinu hefðbundna líkani hagfræðinnar, hefur fært þeim þjóðum velsæld sem við það hafa stuðst. Þær þjóðir sem vantreyst hafa þessu sjálfsprottna kerfi mannlegra samskipta hafa því miður goldið fyrir það með fátækt. Þessi staðreynd ætti að geta verið vísbending um það að ástæða er til að halda í þetta líkan, jafnvel þótt mönnum finnist það stundum ekki ná að lýsa öllum mannlegum samskiptum.