Jólin eru í dag haldin hátíðleg hér á landi og svo er einnig víða um heim, þar á meðal á Kúbu. Já, svo einkennilegt sem það nú er þá þarf að taka það sérstaklega fram að jól séu haldin á Kúbu. Árið 1962 lýsti Castro því yfir að Kúba væri trúlaust ríki og sjö árum seinna var jólahald bannað. Þetta bann var í gildi allt þar til í fyrra, en þá hentaði það Castro að koma sér vel við páfa. Til að undirbúa heimsókn páfa í janúar á þessu ári leyfði harðstjórinn jólin náðarsamlegast í fyrra, en þá átti það aðeins að vera í þetta eina ár. Fyrir um mánuði var svo tilkynnt að jólin skyldu leyfð aftur í ár og sagt var að það yrði til frambúðar.
Jólahald á Kúbu er að vísu með talsvert öðru sniði en hér og þar kemur aðallega tvennt til. Annars vegar geta menn hér á landi gert sér dagamun, skreytt í kringum sig og gefið hver öðrum gjafir. Á Kúbu eru það hins vegar ekki nema þeir sem með einhverjum hætti komast í dollara sem geta keypt sér lítil jólatré og skreytt þau. Um frekari skreytingar er varla að ræða. Hins vegar hefur heil kynslóð alist upp án þess að þekkja nokkuð til kristinnar trúar, enda trúarbrögð þar til fyrir skömmu ekki leyfð. Helsta áhyggjuefni yfirmanns kirkjunnar, kardinálans Jaime Ortega, er að ungt fólk viti ekki einu sinni hvers vegna 25. desember er haldinn hátíðlegur. Í þessu sæluríki sósíalismans er því mikið verk að vinna fyrir kirkjunnar menn.
En harðstjórnin á Kúbu hefur ekki skorið sig úr hvað varðar viðhorf ríkisstjórna sósíalismans til trúmála. Frjálst trúarlíf er hvarvetna illa séð í ríkjum þar sem umsvif hins opinbera eru óhófleg, en í þeim löndum sem lýðræði og markaðsbúskapur hafa orðið ofan á amast stjórnvöld vitaskuld ekki við því þótt fólk iðki trú sína.
Þetta er gott að hafa í huga á þessum degi og við Íslendingar getum út af fyrir sig verið þakklátir fyrir að hafa þetta frelsi til að velja. Og ólíkt Kúbverjum teljum við okkur vita fyrir víst að við munum hafa það áfram að ári.