Í viðtali við Dag sem birtist í Vísi í gær segir biskupinn Karl Sigurbjörnsson: Trúarbrögðin eru ekki á undanhaldi vegna þess að þau eru manninum eiginleg. Það gegnir kannski öðru máli um kristna trú og ég held að það sé ekki kynslóðabundið. Kristni hefur átt í vök að verjast á Vesturlöndum en hún blómstrar í fátæktinni í Afríku. Við á Vesturlöndum höfum selt sál okkar fyrir grautarskál velsældarinnar og græðginnar.
Vafalaust eru þessi orð biskups vel meint og ætluð til að fá fólk til að staldra við og huga að því sem skiptir máli. En þó verður að hafa í huga að munurinn á Vesturlöndum og mörgum öðrum löndum er einmitt sá að minni bönd hafa verið sett á græðgi fólks á Vesturlöndum. Einstaklingar hafa haft frjálsari hendur en víða annars staðar til að afla sér og sínum lífsviðurværis. Það gera menn einkum með því að fullnægja þörfum annarra. Viðskipti snúast um að gera báða aðila betur setta en þeir voru áður. Af þessum sökum eru lífskjör Vesturlandabúa betri en annarra; betri efnahagur, betri menntun, betra heilsufar og betri lífslíkur. Hvergi hafa menn betri möguleika til að næra sálina en einmitt hér á Vesturlöndum. Aðrir heimshlutar njóta að sjálfsögðu einnig góðs af þeim öru framförum sem orðið hafa í vísindum og tækni á Vesturlöndum. Hafi kirkjunni mistekist, eins og biskup virðist álíta, að höfða til fólks þrátt fyrir að það hafi nú meiri frítíma og betri aðstæður til að huga að öðru en hinni eiginlegu lífsbaráttu þýðir það ekki að sálarlífi okkar hafi hrakað. Það er kirkjunni hins vegar umhugsunarefni ef hún á þessum tímum aukinna tómstunda og bættra efna höfðar síður til fólks en áður.
Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.