Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður að öllum líkindum eini ungi sjálfstæðismaðurinn í næstu kosningum sem á raunhæfan möguleika á þingsæti. Félagar hennar í Sambandi ungra sjálfstæðismanna munu þó tæplega líta á hana sem sérstakan málsvara sinn á þingi, því ef marka má viðtal við hana í nýjasta fréttabréfi sambandsins er hún ósammála þeim um æði margt. Það sem vekur sérstaka athygli er að Þorgerður segist vilja lækka skatta en líka auka skatta á ákveðnum sviðum og er óhætt að segja að þarna kveði við nýjan tón, því óalgengt er að sjálfstæðismenn, og þá sérstaklega þeir sem yngri eru, tali um að hækka skatta.
Ekki er farið út í það í smáatriðum í þessu viðtali hvaða skatta Þorgerður hyggst reyna að hækka, en fram kemur að hún er tilbúin til þess að hækka þá til að lengja fæðingarorlof. Þorgerður segir að draga þurfi úr skattbyrði fjölskyldna með meðaltekjur, sem þýðir þá væntanlega að þeir sem eiga að borga bæði fyrir skattalækkun meðaltekjufólks og fæðingarorlofið eru þeir sem hafa tekjur yfir eða undir meðallagi. (Sjálfsagt vill Þorgerður frekar seilast enn dýpra í vasa hinna efnameiri, en þeir greiða nú þegar hærri tekjuskatt en aðrir.)
Hátekjuskatt ætti hins vegar frekar að leggja af en hækka. Hann er ranglátur skattur, enda greiða hinir efnameiri þegar hærri skatt en hinir vegna þess að menn greiða hlutfall af tekjum sínum. Hátekjuskatturinn er vinnuletjandi og hefur því neikvæð áhrif á efnahagslífið, en það bitnar ekki síst á þeim sem lakast standa efnalega. Séu menn þrátt fyrir þetta fylgjandi hátekjuskatti má benda á að hann skilar litlu í ríkiskassann og þeir sem háar tekjur hafa eiga auðveldara með að víkja sér undan skatti en aðrir. Það borgar sig nefnilega fyrir þá að hafa fólk í vinnu við að finna undankomuleiðir.
Það er svo sem ef til vill óþarfi að gera of mikið úr þessum orðum Þorgerðar og hún hefur góðan tíma áður en hún sest á þing til að endurskoða afstöðu sína til skattamála. Það er óskandi að hún og aðrir væntanlegir nýliðar á þingi nýti krafta sína í framtíðinni frekar til að finna leiðir til að draga úr ríkisútgjöldum en að auka þau, nóg hefur verið gert af því í gegnum tíðina og óþarfi að sækjast eftir þingsæti til þess.