Við vorum í sameiningu að þreifa hvert á öðru á bak við tjöldin um helgina, sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir Kvennalistakona á baksíðu DV í gær. Um þennan sama atburð sagði kratinn Pétur Jónsson:
nú þurfa konurnar að ákveða hvort þær ætla að hoppa á eða ekki
.
Það er þá ekki að tilefnislausu sem séra Pálmi Matthíasson hefur verið að vara við því upp á síðkastið, að menn fari án maka á mannamót um helgar.
Þessa dagana eru leiknar auglýsingar í útvarpi þar sem kona vandar um fyrir manni sínum sem ætlar að setja innfluttar vörur í innkaupakörfuna í verslun. Hinn fáfróði eiginmaður fær það óþvegið. Konan bendir honum á að við séum sjálfum okkur nóg og framleiðum hinar og þessar vörur. Auglýsingunni lýkur svo á því að menn eigi að kaupa íslenskt enda sé það gott fyrir landið okkar.
Í sjónvarpinu í fyrrakvöld var rætt við Lilju Árnadóttur formann samstarfsnefndar um íslenska þjóðbúninginn. Þar lýsti hún nokkrum áhyggjum yfir því að nú eru komnir á markað íslenskir þjóðbúningar sem saumaðir eru í Tælandi. Þeir munu kosta einn þriðja af því sem búningar framleiddir hérlendis kosta eða um 100 þúsund krónur.
Ríkið hefur ákveðið að smíðað verði nýtt varðskip. Einungis íslensk fyrirtæki fá að bjóða í smíði skipsins.
Í öllum þessum tilfellum er verið að hvetja til þess að Íslendingar geri sig fátækari fyrir þjóðrembu. Eiginkonan þjóðrækna, sem er á vegum samtaka iðnfyrirtækja, hvetur almenning til að kaupa vörur sem framleiddar eru hér frekar en bestu vörurnar á besta verðinu. Formaður samstarfsnefndar um íslenska þjóðbúninginn vill að kaupendur búningsins taki á sig 200 þúsund króna aukakostnað til að rísa undir þjóðrækninni. Alvarlegast er þó að ríkið ætli að leggja aukakostnað á skattgreiðendur í stað þess að leita hagstæðustu tilboða í smíði á varðskipinu. Neytendur geta látið áróðurinn í hagsmunasamtökum innlendra iðnfyrirtækja og áhugamanna um innlendan saumaskap sem vind um eyru þjóta en aukakostnaður vegna smíði á varðskipinu lendir á skattgreiðendum hvort sem þeim líkar betur eða verr.