Dómar eiga víst að leysa úr ágreiningsefnum manna. Dómur sem Hæstiréttur sendi frá sér nú á fimmtudag virðist þó ekki gera það. Stjórnvöld hafa kallað á færustu sérfræðinga til að rýna í dóminn og reyna að fá einhvern botn í hann. Þessi vinnubrögð Hæstaréttar eru undarleg og gera það að verkum að ekki er hægt að draga víðtækar ályktanir af dómnum. En fleira veldur því að ekki er ástæða til að gera mikið með dóminn. Fimm dómarar kváðu upp dóminn, en ef Hæstiréttur hefði ætlað sér að gera alvarlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi landsins má gera ráð fyrir að þeir hefðu verði sjö eins og tíðkast í stærri málum. Þar að auki kvað Hæstiréttur sama dag upp annan dóm, sá fjallaði um fjárskiptasamning, sem virðist byggja á því að kvóti hafi verðmæti fyrir kvótahafa. Af því leiðir að núverandi kvótakerfi hlýtur að standast að mati dómsins. Nema auðvitað hér séu tveir hæsturéttar og annar telji kvótakerfið í fullu gildi en hinn ekki. Það hefur svo auðvitað ekki verið ætlun þess þings sem nú situr og samþykkti hina nýju grein stjórnarskrárinnar um jafnræðisregluna svonefndu að hún yrði til þess að gerbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Auk þess má benda á að þeir sem nú eiga veiðiheimildir hafa með þeim stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi sem verða ekki tekin af þeim bótalaust.
Þannig að af öllu þessu geta menn leyft sér að draga þá ályktun að fiskveiðistjórnunarkerfi Íslendinga standist, þótt einni grein þess þurfi ef til vill að breyta nokkuð. Breytingin sem þá kann að vera um að ræða snýst um það að ekki megi lengur úthluta kvóta á skip. Þá spyrja menn sig væntanlega hverju eða hverjum skuli þá úthluta, því einhvern veginn verður að úthluta kvótanum. Hæstiréttur hróflaði jú ekkert við þeirri grein fiskveiðistjórnunarlaganna sem snýst um kvótakerfið. Svarið kann að felast í því að í stað þess að úthluta skipum kvóta eins og hingað til verði einstaklingum eða lögaðilum úthlutað kvótanum. Þetta væri í raun til mikilla bóta og mundi sníða einn helsta gallann af núverandi kvótakerfi, því það hefur dregið nokkuð úr hagkvæmni kerfisins að kvótahafar verði að eiga skip.
Sumum kann að finnast þessi niðurstaða af dómnum furðuleg, en það þarf þó alls ekki að vera. Ef litið er til þess að Hæstiréttur getur ekki hafa verið að kollvarpa kvótakerfinu og hins að hann virðist vilja að þeirri grein fiskveiðistjórnunarlaganna verði breytt sem kveður á um að einungis skip hljóti úthlutun, þá eru aðrar leiðir varla færar. Dómurinn getur þannig orðið til að styrkja kvótakerfið og þar með auka enn hagkvæmni þess. Þá mun sú lækkun ganga til baka sem tugþúsundir hluthafa útgerðarfyrirtækjanna þurftu að þola í gær.