Í erindi sem Harris lávarður af High-Cross flutti hér á landi fyrir rúmum áratug bað hann menn að veita því athygli hve mikill munur væri á ánægju manna með þjónustu sem þeir fá á markaðnum og þeirri óánægju sem væri yfirleitt með þjónustu ríkisins. Þessi orð koma upp í hugann þegar stúdentar kvarta nú yfir slakri þjónustu Landsbókasafnsins sem er einkum opið þegar helstu viðskiptavinirnir eru uppteknir annars staðar. Þessi munur á skoðunum manna á þjónustu ríkisins og fyrirtækja á markaðnum er þeim mun athyglisverðari fyrir þá sök að venjulega greiða menn fullt verð fyrir þjónustu einkafyrirtækja en þjónusta ríkisins er undantekningarlítið niðurgreidd af skattfé.
Skýringin á þessu er vafalaust sú að þegar menn eru óánægðir með þjónustu einkafyrirtækja á frjálsum markaði leita menn einfaldlega eitthvað annað. Um leið og fyrirtæki glatar viðskiptavinum reynir það að bæta sig. Til að afla nýrra viðskiptavina þarf það einnig að bjóða góða þjónstu. Aðhaldið á markaðnum er því mikið. Ríkisfyrirtæki hafa hins vegar mjög oft einokunaraðstöðu og menn geta ekki leitað annað. Þessi einokunaraðstaða er bæði lögfest og vegna þess að þjónusta ríkisfyrirtækja er niðurgreidd og aðrir treysta sér ekki til að keppa við hana. Það er því engin ástæða fyrir ríkisfyrirtæki að standa sig vel. Viðskiptavinir ríkisfyrirtækja geta því einungis kvartað yfir þjónustunni við rykfallna embættismenn. Þeir geta reyndar kosið stjórnmálamenn sem þeir telja líklega til að bæta þjónustuna en kosningar eru á fjögurra ára fresti, aðrir kjósendur kjósa áherslu á önnur mál og alls óvíst um árangur.
Íslenskir jafnaðarmenn, sem og skoðanabræður þeirra víða um heim, fara nú mikinn og segja efnahagskreppuna í Asíu og áhrif hennar á fjármálamörkuðum heimsins sýni svo ekki verði um villst að kapítalismi (sem er upphaflega skammaryrði búið til af Marx-istum) sé ekki rétta leiðin heldur verði að fara einhverja ótilgreinda þriðju-leiðina milli kapítalisma og sósíalisma. Við þessa ræðu er svo venjulega hnýtt einhverjum fögrum orðum um nauðsyn lýðræðisins, sem þeir eru nú loksins búnir að taka í sátt eftir að alþýðulýðveldin þar sem fólkið réð hafa að mestu lagt upp laupana (nema hjá fimmtungi mannkyns).
Það er athyglisvert að það land í Austur-Evrópu sem einna best hefur stýrt framhjá þeim vandamálum sem nú hrjá þann heimshluta er Pólland. Pólverjar hrundu af stað umbótum í átt til kapítalisma í einum rykk og þótt margt megi enn bæta þar í landi, svo sem að bæta þungaiðnaðinn og landbúnaðinn (sem að sjálfsögðu var undanþeginn umbótunum) hafa skapast fleiri störf í Póllandi en í nokkru öðru landi Evrópu á síðasta áratug. Lífskjör hafa einnig batnað stórum skrefum og tekist hefur að halda glæpahreyfingum í skefjum.
Í viðtali við Herald Tribune um helgina segir Hanna Gronkiewicz-Waltz, en hún er yfirmaður Landsbanka Póllands nokkuð sem mætti vera íslenskum jafnaðarmönnum umhugsunarefni: Við stóðumst freistinguna. Við sáum að það er engin þriðja leið milli kapítalisma og sósíalisma.