Á föstudaginn var haldin ráðstefna á Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Sjávarútvegsráðuneytisins um kvótakerfið og reynsluna af því. Margir erlendir fyrirlesarar fluttu erindi á ráðstefnunni sem var afar fróðleg og vel sótt. Fyrsta erindið flutti Anthony Scott fyrrverandi prófessor við University of British Colunbia sem oft að nefndur faðir fiskihagfræðinnar. Hann fór yfir það í erindi sínu hvaða áhrif kvótar hafa. Þeir auka að hans mati hreyfanleika veiðiréttarins og veiðiréttarhafar geta betur gætt að rétti sínum en í öðrum kerfum. Þessi áhrif kvótans draga úr kostnaði við veiðar og auka þar með tekjur. Jafnframt hvetur kvótinn til tækninýjunga og framfara í veiðum og vinnslu. Scott telur að kvóti hvetji útgerðarmenn til samvinnu um nýtingu auðlindarinnar en önnur kerfi etji mönnum gegn hver öðrum.
Í erindi Ronalds N. Johnsons prófessors við Montana State University kom fram, að hann telur auðlindagjald draga úr frumkvæði, nýjungum og atorku útgerðarinnar. Raunar telur Johnson að auðlindaskattur geti hreinlega dregið út heildarskatttekjum ríkisins af þessum sökum. Kvóti skapi nefnilega tekjumöguleika og án auðlindagjalds reyni menn að hámarka þessar tekjur.Johnson segir að auðlindagjald dragi úr þessum hvata. Tekjur séu þegar skattlagðar og fjármagnstekjur einnig. Bæti menn enn einum skattinum við, minnki hann skattstofna og þar með tekjur ríkisins.
Það kom fram í máli Johnsons að hann telur eðlilegt að útgerðin standi undir kostnaði og taki við rekstri sem fylgir nýtingu auðlindarinnar svo sem rannsóknum og eftirliti. Sama sagði Phil Major fyrrum ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneyti Nýja-Sjálands. Íslendingar hljóta að skoða þennan möguleika í alvöru enda eru þeir sem hafa nýtingarrétt á auðlindinni líklegastir til að nýta hana skynsamlega þannig að tekjur af henni séu góðar án þess að gengið sé á höfuðstólinn og auðlindin og nýtingarrétturinn falli í verði. Þó að tvær síðustu ríkisstjórnir hafi að mestu farið að tillögum fiskifræðinga við ákvörðun heildarafla eru einnig til dæmi um ríkisstjórnir sem það hafa ekki gert. Pólítíkusar eru líklegri en veiðiréttarhafar til að láta skammtímasjónarmið ráða ferðinni. Á kosningaári þykir mörgum stjórnmálamönnum ákjósanlegt að auka heildaraflann til að bæta efnahagsástandið þótt það kunni að koma niður á tekjum okkar síðar. Ef veiðiréttarhafar taka ákvörðun um að veiða of mikið er þeim strax refsað með minna verðmæti aflaheimildanna. Verðmæti aflaheimilda fer auðvitað eftir ástandi fiskistofna.
Í erindi sínu á ráðstefnunni sagði Birgir Þór Runólfsson, dósent við Háskóla Íslands, að reynslan af íslenska kvótakerfinu væri góð. Þrátt fyrir þessa góðu reynslu væri enn tekist á um kerfið. Kerfið hefði þó leitt til meiri hagkvæmni án þess að landshlutar hafi tapað veiðirétti. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan hafa tilflutningar á kvóta milli landshluta verið ótrúlega litlir miðað við þá umræðu sem farið hefur fram um málið. Það virðist einfaldlega vera þjóðsaga að kvótakerfið hafi skilið suma landshluta eftir kvótalausa.
Suðvesturland | Vesturland | Vestfirðir | Norðurland vesta | Norðurland eystra | Austurland | Suðurland | |
1983 | 27,9% | 11,2% | 13,4% | 5,3% | 14,2% | 13,7% | 14,2% |
1997 | 32,1% | 12,8% | 12,0% | 4,2% | 16,5% | 12,4% | 10,1% |
Sömu sögu má segja af flutningi aflaheimilda milli fyrirtækja. Til dæmis hefur aflahlutur frændanna í Samherja ekki aukist í raun þar sem nýir hluthafar eiga jafnstóran hlut í fyrirtækinu og aukning aflahlutdeildar þeirra samsvarar. Fleiri fróðleg erindi voru flutt á þessari ráðstefnu og verða þeim smám saman gerð skil hér í VÞ á næstunni.