Eins og sumum mun kunnugt verður á morgun kosinn nýr varaformaður Framsóknarflokksins. Tveir þingmenn flokksins, Finnur Ingólfsson og Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir, hafa þegar boðist til að taka þetta starf að sér og hafa bæði veitt fjölmiðlum viðtöl af því tilefni. Sem betur fer eiga framsóknarmenn ekki á hættu að sitja uppi með gagnslausan varaformann því Björg Siv Juhlin mun hafa látið þess getið, að þau Finnur væru bæði mjög hæfileikaríkt fólk. Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var Björg Siv Juhlin svo spurð hvers vegna hún býður sig fram og greindi hún frá því að það er sko ekki að ástæðulausu: Ég býð mig fram þar sem engin kona hefur boðið sig fram til embættis varaformanns flokksins! Loksins, loksins, stjórnmálamaður með mission.
Sama kvöld mættu keppinautarnir tveir svo á Stöð 2 og svöruðu spurningum Kristjáns Más Unnarssonar starfsmanns fréttastofunnar. Hann hóf mál sitt á því að rekja skoðanakönnun sem fjölmiðlar slógu upp í gær og segir að Finnur njóti minna trausts en aðrir ráðherrar. Inngangsspurningin til Finns var svo: Finnur, hvers vegna ert þú svona óvinsæll?. Finni var
sem sagt gert að rekja það sem aðrir kunna að hafa út á hans störf að setja. Þegar kom svo að hinum frambjóðandanum þá var hann nú ekki tekinn neinum vettlingatökum heldur: Jæja Siv, stuðningsmenn þínir segja að kjör þitt í embætti varaformanns myndi bæta ímynd Framsóknarflokksins, hvers vegna er það sem menn eru að segja þetta?
Á flokksþingi Framsóknarflokksins mun margt fleira bera til tíðinda. Þannig mun Steingrímur Hermannsson sjálfsagt greina flokksmönnum frá því sem hann telur hafa farið aflaga í stefnu flokksins á þeim tíma sem liðinn er frá því að hann stýrði honum svo farsællega. Eins og kunnugt er hefur nú verið gefinn út bútur úr ævisögu Steingríms þar sem hann gagnrýnir stefnu Framsóknarflokksins og forystu hans nokkuð. Því verður ekki að óreyndu trúað að hann muni ekki halda sömu skoðunum fram á flokksþinginu og hann gerir í bókinni. Augljóst er að framsóknarmenn munu hlusta af athygli þegar jafn áhrifamikill flokksmaður og Steingrímur Hermannsson tekur flokksforystuna til bæna. Hér verður ótvírætt hápunkur þingsins því að sjálfsögðu hafa ummælin í hinni nýútkomnu bók ekki eingöngu verið sett í hana í söluskyni og Steingrímur hefur meint hvert orð – þegar hann sagði það.
Og fyrst Vefþjóðviljinn hefur hér fjallað um flokksþing framsóknarmanna, neyðist hann til að nefna að eitt smáatriði setur leiðinlegan blett á annars glæsilega umgjörð þingsins. Svo virðist sem orð hafi fallið út úr yfirskrift þingsins, Vertu með á miðjunni. Það vantar alveg upplýsingar um það hvað það er sem menn eiga að vera með á miðjunni.