Andstæðingar markaðsskipulagsins hafa barmað sér mikið yfir sölunni á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þeir agnúast sérstaklega út í það að verðbréfafyrirtækin gáfu fólki kost á að taka þátt í einkavæðingunni með því að gera við það framvirka samninga um kaup á bréfunum. Þetta fólk hefði ella ekki átt þess kost.
Þessir samningar hafa verið kallaðir öllum illum nöfnum af ýmsum fjölmiðlum, en eru þó eins og flestir vita frjálsir samningar um að skiptast á áhættu. Verðbréfafyrirtækin hlunnfóru ekki einn eða neinn í þessum samningum heldur keyptu áhættuna af einstökum fjárfestum í skiptum fyrir hagnaðarmöguleika bréfanna. En hvers vegna skyldu verðbréfafyrirtækin hafa gert þetta? Jú, þau mátu raunvirði bréfanna hærra en útboðsgengi þeirra. Og vegna þess að seljandinn setti hömlur á hversu mikið menn máttu bjóða í, og hversu hátt þeir máttu bjóða, voru fyrirtækin tilbúin að borga almenningi hluta af ágóðavon sinni í skiptum fyrir kaupréttinn. Það kom fram í könnun Viðskiptablaðsins daginn áður en útboðinu lauk að sérfræðingar á hlutabréfamarkaðinum töldu FBA bestu kaupin sem í boði voru. Því urðu menn að gera framvirka samninga til að tryggja sér þann skerf af útboðinu sem þeir óskuðu eftir. Til að mynda hefði einstaklingur sem vildi komast yfir fullan hlut í útboðinu þurft að skrá 8,3 kennitölur til að fá hann og menn borguðu verðbréfafyrirtækjunum fyrir að gera það fyrir sig.
Sagt hefur verið að fólk sem seldi hlut sinn framvirkt hafi ekki tekið þátt í viðskiptum heldur einungis leigt kenntitölu sína. Þetta er alrangt þar sem að þeir sem tóku þátt í þessum samningum báru mótaðilaáhættu, áhættuna samfara því að ekki væri staðið við samninginn og svo afsöluðu þeir sér réttinum til að kaupa sjálfir. Það lýsir síðan barnaskap Finns Ingólfssonar þegar hann segir að ef kennitölum hafi verið safnað gangi það gegn stefnu ríkisstjórnarinnar um dreifða eignaraðild. Hann hefði eins getað sagt að haustið sem nú er gengið í garð gangi gegn stefnu ríkisstjórnarinnar um gott veður. Því hvernig getur ríkisstjórn haft stefnu um það hversu margir treysta sér til að bera þá áhættu sem felst í að eiga hlut í banka sem fæstir þekkja og á í mjög svo sérhæfðum og ógagnsæjum viðskiptum?
Það er heldur ekkert sjálfgefið að fyrirtækin eða fjárfestarnir sem gerðu framvirka samninga græði á þeim, skemmst er að minnast útboðs ríkisins í Járnblendinu þar sem Kaupþing og FBA buðu 3,01 og 3,05 í bréf sem voru boðin út á 2,50. Síðar kom í ljós að útboðslýsing félagsins hafði verið ófullnægjandi þar sem ekki var greint frá þeirri áhættu sem fólst í orkusamningum félagsins við Landsvirkjun. (Hér að ofan sést gengisþróun Íslenska járnblendifélagsins frá því það kom á markað 18. maí.) Það útboð ætti raunar að vera Finni mun meira umhugsunarefni enda er hætt við að það hafi dregið verulega úr tiltrú manna á hlutabréfamarkaðinum. Og raunar stendur það mál Finni mun nær, því þáverandi ráðuneytisstjóri hans og núverandi bankastjóri Landsbankans, undirritaði yfirlýsingu í upphafi skráningarlýsingarinnar þar sem sagði: Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið staðfestir hér með að upplýsingar sem fram koma í skráningarlýsingu þessari er varða samninga stjórnvalda við Íslenska járnblendifélagið hf. og eignaraðila þess séu í fullu samræmi við staðreyndir og í hana vanti engin mikilvæg atriði sem að mati ráðuneytisins gætu haft áhrif á mat fjárfesta á Íslenska járnblendifélaginu eða hlutabréfum þess.. Og Finnur fór einnig með eina hlutabréfið í Landsbankanum á þessum tíma en í upphafi skráningarlýsingarinnar undirritaði forstöðumaður viðskiptastofu bankans yfirlýsingu sem lauk með eftirfarandi yfirlýsingu: Landsbanki Íslands hf. lýsir því hér með yfir að skáningarlýsing þessi er gerð eftir bestu vitund, í fullu samræmi við þau gögn sem byggt er á og að í hana vanti engin mikilvæg atriði sem áhrif gætu haft á mat á Íslenska járnlendifélaginu hf. eða hlutabréfum þess.
Þannig að böndin berast ekki að verðbréfafyrirtækjunum þegar rætt er um óeðlileg viðskipti á hlutabréfamarkaðinum heldur að Finni Ingólfssyni.