Stefna Evrópusambandsins í viðskiptamálum þvælist oft fyrir eðlilegum viðskiptum. Samkvæmt nýjasta tölublaði The Economist á þessi stefna stóran þátt í því að hlutfall þess sem varið er í upplýsingatækni innan ESB er ekki nema um helmingur þess sem gerist í Bandaríkjunum ef miðað er við þjóðarframleiðslu. Bæði vél- og hugbúnaður hafa verið mun dýrari austan megin atlantsála en vestan þeirra og þrátt fyrir að verið sé að fella niður tolla og reglur um undirboð á þessu sviði er talið ólíklegt að Evrópa muni ná Bandaríkjunum í bráð.
Hnatthitnun er heiti á heilsíðugrein í Morgunblaðinu á sunnudaginn eftir Friðrik Daníelsson efnaverkfræðing. Þar rekur Friðrik lið fyrir lið hvernig umræðan um svonefnd gróðurhúsaáhrif hefur verið upp á síðkastið og hvaða rök hafa verið færð fram í málinu. Er greinin kærkomin tilbreyting frá svartsýnisrausi umhverfisverndarsinna um þessi mál. Gefum Friðriki orðið:
Lítum nú á hvort eitthvað er að rætast af nýlegum heimsendisspám: Jöklar að bráðna: Miklir vísindaleiðangrar hafa verið gerðir til aðalísgeymslu jarðar, Suðurskautslandsins. Niðurstöðurnar eru á eina lund: Ekki er hægt að greina neina bráðnun, vísindamenn fara fýluferðir þangað.
Það hækkar í sjónum: Hér eru vísindamenn ekki sammála. Ein kenningin segir að það hækki um 2 mm á ári. Það gætu þó alveg eins verið náttúrulegar landabreytingar eða mælingaskekkjur, það er mjög erfitt að mæla hreyfingarnar vegna stöðugrar hreyfingar landsins. Með öðrum orðum: ekkert er að gerast.
Eyðimerkurstækkun: Þessu er búið að vara við lengi en erfitt að sjá hvað er af völdum veðurfarsbreytinga og hvað er eðlilegar sveiflur eða hvað er af völdum lélegrar umgengni við landið.
Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður ritar bréf til Vef-Þjóðviljans í dag í tilefni umræðunnar undanfarið um kosti þess og galla að banna sum fíkniefni. Ein frægasta ræða, sem flutt hefur verið í alþingi var flutt í kókaínrús, segir Haraldur m.a. í bréfi sínu.