Þriðjudagur 17. nóvember 1998

321. tbl. 2. árg.

Þeirri kenningu er stundum haldið á loft að flest fólk vilji hækka skatta með því að leggja auðlindaskatt á sjávarútveg. Þessi kenning var prófuð í 12.000 manna prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Reykjanesi á laugardag. Ellefu manns gáfu kost á sér og þar af var einn, Markús Möller, sem lýsti þeirri skoðun sinni að hann vildi leggja á auðlindaskatt. Hinir tíu fóru yfirleitt fremur leynt með skoðanir sínar aðrar en þær að breikka Reykjanesbrautina fyrir árið 2000 og gera landið fíkniefnalaust árið 2002. (Hvers árið 2001 að gjalda?) Gátu kjósendur því gert ráð fyrir því að enginn þeirra ætlaði sér að reyna að breyta stefnu flokks síns í veigamiklum málum.

Það er skemmst frá því að segja að hugmyndum þessa eina frambjóðanda um að leggja á auðlindaskatt var alfarið hafnað í prófkjörinu og lenti hann í 8. sæti af 11 mögulegum og á engan raunhæfan möguleika á þingsæti. Þetta gerist þrátt fyrir að frambjóðandinn hafi enga aðra áberandi galla en að vilja þennan skatt. Kenningunni um að fólk vilji auðlindaskatt og láti afstöðu til hans hafa áhrif á hvað það kýs er því hafnað eftir þessa athyglisverðu og í raun einstæðu tilraun.

Á föstudaginn verður svo haldin ráðstefna á vegum Hagfræðistofnunar háskóla Íslands og sjávarútvegsráðuneytisins um kvótakerfið þar sem Markús er meðal fjölda athyglisverðra fyrirlesara eins og Lee Anderson, Roger Bate og Julian Morris hjá umhverfismáladeild Institute of Economic Affaires, Birgis Þórs Runólfssonar og Ragnars Árnasonar.

Í Fókus á föstudaginn var rætt við Eyþór Arnalds um pólítíkina og fleira. Þar er hann spurðum um hvað honum finnist um lögleiðingu fíkniefna. Eyþór svarar m.a. með eftirfarandi orðum:
„Aðferðafræðin sem var notuð í Bandaríkjunum, War on Drugs, tókst bersýnilega ekki. Þar var lögð meiri áhersla á hræðslu en fræðslu. Menn verða að átta sig á því að galdurinn liggur ekki endilega í því að takmarka framboð á fíkniefnum. Ef meiri áhersla verður lögð á að minnka eftirspurnina þá leiðir það til þess að framboðið minnkar líka. Þó framboðið yrði takmarkað yrði eftirspurnin samt sem áður jafn mikil, verðið myndi hækka og menn myndu finna sér leiðir, og þá ólöglegar, til að verða sér út um efnin. Lykilatriðið er fræðsla svo eftirspurnin minnki.“