Í Morgunblaðinu í gær segir G. Pétur Matthíasson innheimtustjóri Ríkisútvarpsins frá því hneyksli að árlega finnast 1.500 til 4.000 óskráð sjónvörp á heimilum landsmanna. Með öðrum orðum telur hann það greinilega hið versta mál almenningur skuli eignast sjónvarpstæki án þess að þau séu á skrá hjá RÚV. Ætlar G. Pétur jafnvel að taka aftur í notkun sérstakan búnað sem getur skorið úr um það hvort sjónvörp eru til á heimilum landsmanna.
Til að lina verstu þrautir G. Péturs yfir því að einhver horfi á hina dásamlegu dagskrá RÚV án þess að borga afnotagjöldin vill Vef-Þjóðviljinn benda honum á nokkur hundruð sjónvarpstæki á einu bretti sem ekki er borgað af. Þessi tæki eru í eigu starfsmanna Ríkisútvarpsins – þeirra á meðal G. Péturs. Er það ekki nema sjálfsagt að hann borgi afnotagjöldin sem honum þykir svo sjálfsagt að allir greiði.
Bellatrix, áður Kolrassa krókríðandi, hélt útgáfutónleika í Loftkastalanum í gærkvöldi. Voru tónleikarnir vel heppnaðir eins og við mátti búast af þessari hljómsveit og var ekki annað að heyra en tónleikagestir væru almennt þessarar skoðunar. Bellatrix er um þessar mundir að reyna fyrir sér erlendis og á ágæta möguleika ef marka má tónleikana í gær. Þessir tónleikar í þessu húsi leiða hugann að miklum afskiptum hins opinbera af listsköpun hér á landi í formi beingreiðslna til valinna listamanna og bygginga hins opinbera yfir tiltekna gerð listsköpunar.
Hvorki Bellatrix né Loftkastalanum er haldið uppi af hinu opinbera, en þó (eða ef til vill þess vegna) virðast bæði standa sig ágætlega. Og raunar eiga bæði í samkeppni við opinbera styrki og hafa stjórnendur Loftkastalans t.d. kvartað yfir ójafnri samkeppni við hið opinbera. Það er eins með listsköpun og annað sem menn taka sér fyrir hendur, að ef hið opinbera hefur afskipti af henni þá verður ekki það til sem fólk vill helst heldur það sem yfirvöld eða háværir þrýstihópar vilja sjá. Það fer þess vegna best á því að hið opinbera hætti afskiptum af listalífi í landinu og leyfi því að dafna með þeim hætti sem fólk vill.