Gagnrýni hefur komið úr ólíkum áttum á þá ákvörðun stjórnvalda að nýtt varðskip verði að smíða hér á landi og megi ekki smíða annars staðar. Ríkiskaup og ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í málefnum EES hafa gagnrýnt ákvörðunina á þeim forsendum að hún brjóti í bága við útboðsreglur EES, en þær hljóða upp á að útboð skuli fara fram á öllu EES svæðinu. Aðrir, þeirra á meðal fréttabréf Viðskiptastofu Íslandsbanka, hafa gagnrýnt ákvörðunina á þeim forsendum að hún sýni að vegna kosninganna næsta vor sé að verða los á kostnaðaraðhaldi hjá ríkinu.
Tvær ástæður eru fyrir því að síðari röksemdin er mikilvægari en hin fyrri. Annars vegar er nauðsynlegt að ríkisvaldið hagi fjármálum sínum fram yfir kosningar með þeim hætti að hér fari ekki allt úr böndum. Þegar ríkisfjármálin eru skoðuð sést að þörf er á að skera niður miðað við núverandi fjárlagafrumvarp en ekki að eyða meiru en nauðsyn krefur. Hins vegar ber ríkinu skylda til að fara eins vel og nokkur kostur er með það fé sem það neyðir almenning til að láta af hendi í formi skatta. Skattbyrðin er nógu þungbær þótt ekki sé beinlínis verið að sóa fjármunum skattgreiðenda.