Venjuleg og eðlileg rök duga ekki til að rökstyðja það misvægi atkvæða sem viðgengst hérlendis. Þess vegna grípa sumir menn, nú eins og áður þegar átt hefur að leiðrétta þetta misvægi, til misjafnra röksemda og sérkennilegra. Ein þeirra sem heyrðist í umræðum um þetta mál í gær var að sveitarstjórnir væru orðnar svo vanar að starfa saman innan núverandi kjördæmaskipunar að engin leið væri að breyta henni.
Gervirök af þessu tagi munu heyrast töluvert í þeirri umræðu sem framundan er um þetta mál frá þeim sem græða vilja á ósanngjörnu kerfi en kunna ekki við að gangast við því gróðabralli. Þeir munu reyna að þvælast fyrir málinu með þrasi um tæknilegar útfærslur og einhver smáatriði sem þeir finna til réttlætingar andstöðunni. Almenningur mun hins vegar fylgjast grannt með því hvernig þingmenn taka á þessu máli og dæma þá eftir því hvort þeir taka stærri hagsmuni fram yfir minni.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram á Alþingi, frumvarp til gæludýralaga. Með frumvarpinu ku fylgja skýrsla um tegundafjölda og dreifingu spólorma í sandkössum og vísast er það ágætis rökstuðningur út af fyrir sig. Athyglisvert er þó að Hjörleifur rökstuddi tillöguna, í viðtali við fréttamann, með þessum orðum: …það er eyða í íslenskri löggjöf. Þarna birtist í einni setningu viðhorf stjórnlyndra manna til löggjafans. Það er, ef hægt er að ímynda sér lagasetningu um eitthvað, þá skal setja um það lög. Aðspurður hvort honum væri illa við ketti svaraði Hjörleifur nei, alt so mér er vel við öll dýr. Þá höfum við það, homo economicus hlýtur að vera planta.