Sigfúsarsjóður heitir fyrirbæri nokkuð sem haft hefur það hlutverk að sjá Sósíalistaflokknum og svo arftökum hans fyrir húsnæði, en Alþýðubandalagið hefur sem kunnugt er verið arftakinn hingað til. Hvort það er vegna þess að það flokksbrot er nú varla til lengur skal ósagt látið, en Sigfúsarsjóður hefur nú ákveðið að losa um fjármagn og selja hluta af eigum
sínum. Eignin sem seld er heitir Laugarvegur 3, 4. hæð. Svo skemmtilega vill til að um leið og Sigfúsarsjóður ákvað að selja hugðist Reykjavíkurborg R-listans kaupa. Hún notaði að vísu millilið í þessum styrk sínum til sjóðsins, en þetta var sem sagt fóðrað með því að Samtökin 78 þyrftu nú húsnæði. Einmitt þegar Sigfúsarsjóður vildi selja. Þannig munu níu milljónir króna renna úr borgarsjóði í Sigfúsarsjóð á næstunni og veitir líklega ekki af þegar hörð kosningabarátta fer í hönd og vinstri menn þurfa á öllu sínu að halda.
Þess má geta, að sjóður þessi er kenndur við Sigfús Sigurhjartarson, þingmann Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans, og var stofnaður eftir andlát hans 1952. Í stofnskrá kom fram, að sjóðinn skyldi nota til að reisa og reka samkomuhús og starfsmiðstöð fyrir íslenska alþýðu og flokk hennar, Sameiningarflokk alþýðu, Sósíalistaflokkinn. Síðan 1952 hefur sjóðurinn lengst af átt og rekið þær húseignir, sem Sósíalistaflokkurinn og arftaki hans Alþýðubandalagið hafa notað undir starfsemi sína. Lengi lá fjármagn þetta í fasteigninni Tjarnargötu 20, síðar að Grettisgötu 3 og loks í stórhýsi að Hverfisgötu 105, þar sem um nokkurt skeið var rekinn veislusalurinn Risið. Undanfarin ár hefur fé sjóðsins verið bundið í tveimur hæðum að Laugavegi 3 og var Alþýðubandalagið þar til húsa þar til fyrir fáeinum misserum að það flutti skrifstofu sína að Austurstræti 10. Sjóður þessi og umsvif hans hafa verið bitbein manna í innanflokksátökum í Alþýðubandalaginu um langt árabil og er spurning hvort þau munu vakna upp aftur, nú þegar peningarnir hafa verið losaðir úr fasteigninni við Laugaveg.
Einhvern tímann hefðu hvítþvegnir vandlætarar á borð við Jóhönnu Sigurðardóttur og Ágúst Einarsson þingmenn Þjóðvaka væntanlega hrópað hátt yfir verkum á borð hússölumálið á Laugaveginum, en nú þegir slíkt fólk þunnu hljóði, enda spilling ekki spilling ef vinstri menn eiga í hlut.
En það er kannski ekki að undra þótt vinstri menn reyni að þegja slík mál í hel nú, því samkvæmt skoðanakönnunum eiga þeir nánast ekkert fylgi meðal þjóðarinnar og því minna sem þeir reyna meira að sameinast. Samkvæmt nýrri könnun Gallup fengju sameinaðir vinstri menn einungis 32% atkvæða ef kosið væri nú á meðan höfuðandstæðingurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, fengi einn 52%.