Mælingar á hitastigi andrúmsloftsins með gervitunglum hafa, eins og Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá, ekki sýnt neina hækkun á hitastigi þess frá því þessar mælingar hófust árið 1979. Þvert á móti hafa niðurstöður mælinganna úr gervitunglunum sýnt örlitla, en marktæka, lækkun á hitastigi andrúmsloftsins. Þessar mælingar byggjast á titringi í súrefnissameindum en tíðni breytist með hitastigi. Mælingarnar eiga því að vera nákvæmari en flestar mælingar á jörðu niðri.
Í grein í tímaritinu Nature nú í ágúst var bent á að ástæða þess að gervitunglin mæla lækkun kunni að vera sú að sporbraut þeirra breytist vegna loftmótstöðu, en ekki vegna raunverulegrar lækkunar hitastigs í andrúmsloftinu. Þegar leiðrétt hafi verið fyrir þessu hafi gervitunglamælingarnar því í raun sýnt hækkun hitastigs sem nemur 0,07°C á áratug. Sem von er fögnuðu þeir, sem trúa einlæglega á að hiti í andrúmsloftinu fari hækkandi, þessum ábendingum.
Umsjónarmenn gervitunglamælinganna hjá NASA hafa nú yfirfarið mæligögnin og tekið tillit til ábendinganna í greininni í Nature. Raunar höfðu þeir að nokkru tekið tillit til breytingar á sporbraut gervitunglanna þegar þeir unnu úr gögnum sínum áður. Höfundar greinarinnar í Nature höfðu hins vegar ekki frummæligögnin þegar þeir áætluðu skekkjuna vegna breytingarinnar á sporbrautinni. Eftir þessa endurskoðun komast umsjónarmenn gervitunglamælingnanna hjá NASA að þeirri niðurstöðu að andrúmsloftið hafi kólnað um 0,01°C frá árinu 1979.
Þessi umræða um áreiðanleika gervitunglamælinga sýnir ef til vill hve margt er óskoðað varðandi kenninguna um hlýnun andrúmslofts jarðar. Það er því ekki nema sjálfsagt að gæta varúðar áður en menn grípa til róttækra aðgerða eins og stjórnvaldsaðgerða til að draga úr nýtingu á þeim orkugjöfum sem ódýrastir og þægilegastir eru í dag.
Þeim, sem vilja kynna sér málið nánar, er bent á heimasíðu Ágústs Bjarnasonar verkfræðings en hann fylgist náið með umræðum um þróun hitastigs á jörðinni og bætir reglulega á heimasíðu sína nýjum upplýsingum, myndum og vísunum í aðrar vefsíður um þessi hitamál.