Ríkisútvarpið hefur óskað eftir því við menntamálaráðuneytið að hækka afnotagjöld sín um 11%. Undanfarið hefur þó verið verðhjöðnun svo RÚV getur vart skýlt sér á bak við almenna verðlagshækkun. Þegar einstakar vörur hækka þá dregur fólk oft úr neyslu þeirra. (Það er m.a. ástæða þess að mönnum þykja alltaf vísitölutryggð lán hækka meira en allt annað.) Undan sköttum og öðrum gjöldum til hins opinbera geta menn þó yfirleitt ekki vikið sér. Afnotagjald til RÚV er ekkert annað en skattur. Menntamálaráðherra stendur því frammi fyrir því að heimila skattahækkun. Vart er við því að búast að ráðherrann láti undan kröfum RÚV enda mun það stefna ríkisstjórnarinnar að auka ekki skattbyrðar almennings.
Þó gæti ráðherrann fallist á hækkunarkröfu RÚV að einu skilyrði uppfylltu. Þ.e. að mönnum verði í sjálfsvald sett hvort þeir greiða gjaldið. Þá mætti þess vegna hækka afnotagjaldið um 111%. En líklega þykir forsjárhyggjuliðinu á Alþingi, sem ræður skipan þessara mála, það ekki góð býti.