Fimmtudagur 3. september 1998

246. tbl. 2. árg.

Sigurður Þ. Ragnarsson sjónvarpsfréttamaður hefur að undanförnu sagt farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við Helga H. Jónsson fréttastjóra Ríkissjónvarpsins. Þetta er ekki það fyrsta sem upp kemur í sambandi við fréttastjórn Helga, en hann hefur áður verið gagnrýndur fyrir það að hafa hlíft frambjóðendum R-listans, sérstaklega þeim Helga Hjörvar og Hrannari Arnarssyni, við eðlilegri umfjöllun fyrir kosningar.

Á Þjóðbraut Bylgjunnar í gær upplýsti Sigurður að Helgi hefði reynt að stöðva útsendingu á ummælum leiðtoga D-listans sem komu sér illa fyrir R-listann. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hverju fram vindur í þessu máli Sigurðar og Helga og því hvort fleira á eftir að koma í ljós um pólitíska fréttastjórn á Ríkissjónvarpinu.

Sumir fylgjendur þjóðnýtingarstefnu í fiskveiðistjórnun hyggjast nú fylgja nýfundnum leiðtoga sínum Sverri Hermannssyni út í það ævintýri að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Spillingarmál þessa sama Sverris var ýmsum þessara núverandi fylgismanna Sverris að vísu tilefni

sverrirh.jpg (3404 bytes)
sverrirh.jpg (3404 bytes)

fundarhalda fyrir nokkru, en þar spyrtu Samtök um þjóðareymd spillingarmál Landsbanka og kvótakerfið saman með stóryrðum eins og þau eru vön.

Einhver Bárður Halldórsson er „varaformaður Samtaka um þjóðareign“, og sjálfsagt í fullu starfi sem slíkur. Nú hyggst hann bjóða fram með Sverri og segir hann frá því borubrattur að hinn nýi stjórnmálaflokkur muni bara heita Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, fyrst nafnið Lýðræðisflokkurinn er

zhirinovsky.jpg (3562 bytes)
zhirinovsky.jpg (3562 bytes)

frátekið. Það er skemmtilegt til þess að hugsa að þegar þessi flokkur hefur verið stofnaður verður Sverrir ekki eini gasprarinn sem leiðir flokk með þessu nafni. Annar hávaðabelgur, Vladimir Zhirinovsky, stýrir flokki austur í Rússlandi sem ber sama nafn.

Annað sem tengir flokk Sverris og félaga við helstu stórmenni Rússlandssögunnar er dagurinn sem þeir hafa valið sér til stofnunar flokksins, 7. nóvember, byltingardagur bolsévikanna. Öll er þessi atburðarás svo klaufaleg hjá þessum Bárði að þess verður eflaust skammt að bíða að klaufagangurinn allur skapi honum eitthvert viðurnefni við hæfi.