Fimmtudagur 20. ágúst 1998

232. tbl. 2. árg.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að hið svonefnda félagslega húsnæðiskerfi væri komið í þrot. Ríki og sveitarfélög þyrftu að leggja fram 2000 milljónir króna til þess að losna við félagslegu íbúðirnar sem margar hafa staðið auðar mánuðum og árum saman. Ástæðan fyrir því að þær standa auðar er einfaldega sú að þessar félagslegu íbúðir eru of dýrar!

Nú hljóta menn að velta því fyrir sér hvaða stjórnmálamenn voru helstu aðstandendur þessa kerfis. Vefþjóðviljinn treystir þingmönnum jafnaðarmanna ágætlega til þess að krefjast svara við þeirri spurningu. Hinn heilagi vandlætari Jóhanna Sigurðardóttir hlýtur a.m.k. að krefjast rannsóknar á því hvernig þessar 2000 milljónir fóru í súginn. Hún gæti jafnvel lagt fram tillögu um að sérstök rannsóknarnefnd verði sett á legg á vegum Alþingis. Slík rannsóknarnefnd gæti til dæmis kallað Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra og æðsta yfirmann félagslega húsnæðiskerfisins árin 1987 – 1994 til vitnis…

Fá dæmi eru um að fréttamenn leggi til atlögu við stjórnmálamenn með svo hrapalegan misskilning að vopni sem Kristján Már Unnarsson á Stöð 2 í gærkvöldi. En þar tók fréttamaðurinn Geir H. Haarde fjármálaráðherra tali. Fréttamaðurinn hafði fengið dæmi frá ASÍ um að fólk greiddi hærra hlutfall launa sinna í skatt eftir nýlegar skattalækkanir OG launahækkanir. Í einföldu máli má segja að fréttamaðurinn hafi haldið því fram að ef laun manns hækka úr 100 þúsund krónum (en af þeim borgar hann 15 þúsund eða 15%  í skatt) í 200 þúsund (þar sem 54 þúsund eða 27% fara í skatt) að skattar hafi verið hækkaðir í landinu!

Það er raunar athyglisvert að ASÍ skuli gagnrýna að þeir sem fá hærri laun skuli borga hlutfallslega hærri skatta en hinir sem lægri laun hafa. Það kemur mjög á óvart. ASÍ hefur lengi lagt á það áherslu að þeir sem hafa hærri laun borgi hærra hlutfall í skatt. ASÍ hefur viljað hafa jaðaráhrif skattkerfisins sem mest. ASÍ hefur viljað refsa fólki fyrir að auka tekjur sínar. Og ASÍ hefur fengið þeim vilja sínum framgengt.

Jaðaráhrifin eru nú orðin svo mikil að jafnvel ASÍ er farið að gagnrýna þau! Að minnsta kosti ef marka má hagfræðing samtakanna sem var í viðtali við Ríkissjónvarpið í fyrrakvöld. En þar lýsti fræðingurinn miklum áhyggjum af jaðaráhrifunum. Hagfræðingur þessi hafði líka tillögur um hvernig bæta má skattkerfið. Jú, með því að fjölga skattþrepum og hafa stighækkandi tekjuskattsprósentu. Það þýðir undir öllum eðlilegum kringumstæðum að jaðaráhrifin aukast!!!