Á þessum árstíma er jafnan talsverð opinber umfjöllun um skatta og tekjur einstakra manna. Ástæðan er sú að um mánaðamótin júlí/ágúst eru lagðar fram álagningarskrár vegna skatta ársins á undan og er allnokkur venja komin á að í fjölmiðlum sé greint frá ýmsu sem þar kemur fram. Verður stundum úr þessu heldur ósmekkleg umfjöllun, enda málefnið vandmeðfarið og misjafn sauður í mörgu fé á fréttastofum fjölmiðlanna.
Full þörf er á að fólk velti fyrir sér hvort yfirhöfuð sé ástæða til að hafa álagningarskrá opna fyrir almenning. Upplýsingar um fjárhagsmálefni manna eru í grundvallaratriðum einkamál. Þegar af þeirri ástæðu þarf verulega sterk rök til að réttlæta opinbera birtingu upplýsinga um skatta manna. Einu rökin sem heyrst hafa í þessu máli er að opinber birting skapi aðhald gegn skattsvikum, því að erfiðara sé fyrir menn að útskýra mismun milli kostnaðarsamra lífshátta og lágra skatta þegar allir geti séð hve mikið eða lítið þeir greiða í skatta. Þessi rök vega ekki þungt. Ríkisvaldið hefur fjölda manns í vinnu við að fylgjast með því að skattgreiðslur manna séu í samræmi við lög og reglur og einhverjar hugsanlegar ábendingar forvitins áhugafólks bæta engu þar við. Mannafli, sérfræðiþekking og víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar gera það að verkum, að skattayfirvöld eru í allt annarri og betri aðstöðu til að meta þessa þætti heldur en hnýsið fólk úti í bæ.
Í annan stað má benda á, að upplýsingar í álagningarskrám eru afar ófullkomnar. Eftir að álagningarskrárnar hafa verið lagðar fram geta skattgreiðendur kært álagninguna og fengið breytingu á sköttum sínum. Þess vegna segja álagningarskrárnar alls ekki alla söguna um endanlegar skattgreiðslur fólks. Er einnig af þeirri ástæða vafasamt að þessar upplýsingar eigi að vera opinberar. Það er mjög óábyrgt af fjölmiðlum að setja fram fullyrðingar um meintar tekjur einstakra manna, sem einungis eru byggðar á jafn ófullkomnum upplýsingum og er að finna í álagningarskránum. Þar er því um að ræða óvandaða æsifréttamennsku, þar sem yfirleitt er verið að spila á öfund og aðrar lægstu hvatir manna.