Hvers vegna dafna sum þjóðfélög en önnur ekki? Svara við þessari spurningu er leitað í nýjasta tölublaði Cato Policy Report. Þar rekur Reuven Brenner, höfundur Labyrinths of Prosperity, nokkur dæmi um þjóðfélög sem tekið hafa stórstígum efnahagslegum framförum á stuttum tíma. Nærtækasta dæmið er auðvitað Bandaríkin en flestir innflytjendur til Bandaríkjanna voru fátækir Evrópubúar enda sáu þeir ríku enga ástæðu til að flytja. Í nýja heiminum þvældist ekki stirðbusalegt ríkisvald og reglugerðir fyrir dugmiklu fólki.
Annað dæmi tekur Brenner frá Evrópu 17. aldar en þar hefði mátt ætla að Spánn og Portugal sem rökuðu saman auði í nýlendum sinum í Suður-Ameríku tækju mestum framförum. Svo var hins vegar ekki. Hollendingar mismunuðu fólki ekki eftir trúarbrögðum á þessum tíma andstætt flestum öðrum ríkjum Evrópu og eignarréttur stóð styrkum fótum. Viðskipti fóru að mestu leyti fram óhindruð. Þetta opna þjóðfélag laðaði til sín hæfileikafólk frá öðrum löndum Evrópu ekki síst frá þeim þar sem fólki var mismunað vegna trúarbragða eða kynþáttar. Amsterdam varð á þessum tíma fjármálamiðstöð heimsins. Hamborg, Hong Kong, Taiwan og Singapur hafa síðar náð svipuðum árangri og Hollendingar á 17. öld. Þessi ríki eiga það sameiginlegt að ríkisvaldið hefur einbeitt sér að því að búa til frjálslega umgjörð um viðskipti manna og gæta þess að menn fylgi þeim lögum. Lágir skattar eu einnig samnefnari fyrir þessa staði en þeir virðast ætíð laða fjárfesta að sér.
Brenner víkur einnig að velgengni Vestur-Þjóðverja eftir seinna stríð og bendir á að Marshall aðstoðin hafi haft lítið að segja í því sambandi og áhrifin af henni hafi verið ofmetin. Til marks um það bendir hann á að eftir fyrra stríð hafi Evrópulönd fengið svipaða aðstoð en mun minni framfarir átt sér stað. Meiru skipti að eftir seinna stríð hafi viðskipti verið frjálsari.
Brenner tekur svo dæmi af Skotlandi sem var tiltölulega fátækt land um 1700. En frá 1707 var Skotlandi stjórnað frá Englandi og ensk lög um viðskipti, skatta og mynt tóku gildi. Þrátt fyrir að Skotar hefðu lítið um það að segja hvaða lögum og reglum þeir þyrftu að fylgja (rétt eins og íbúar Hong Kong undir breskri stjórn) varð næsta öld mikið framfaraskeið og Skotar stóðu í fararbroddi iðnvæðingarinnar á 19. öld. Skosk fjármálaþjónusta um aldamótin 1800 átti sér fáar hliðstæður enda var löggjöfin sem þeir fylgdu mun frjálslegri en víðast annars staðar.
Niðurstaða Brenners er því að frjáls viðskipti og traustur eignarréttur skipti meginmáli fyrir efnahagslega velgengni þjóða. Góðar hugmyndir einar og sér dugi skammt ef ekki er mögulegt að versla með þær. Þá leiti menn bara eitthvert annað með þær.