Eitt af ótalmörgum málum sem Helgi Hjörvar hefur séð ástæðu til að tjá sig um opinberlega síðustu daga, varðar veitingu styrks til endurbóta á húsi inni í Sigtúni. Eins og margir muna, varð einni fréttastofu mikið niðri fyrir vegna málsins, og flutti hún langa frétt um það nokkrum klukkustundum eftir að styrkurinn hafði verið afhentur. Gagnrýnt var að borgarminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir, býr í húsinu ásamt fjölda annarra og þótti hún hafa starfstengsl við einn starfsmann Reykjavíkurborgar sem var borgaryfirvöldum til ráðgjafar í málinu. Einkum þótti athugavert að þetta tiltekna hús var talsvert yngra en önnur sem styrkir fengust til.
Eftir að báðir flokkar sem sitja í borgarstjórn höfðu gagnrýnt styrkveitinguna ákváðu íbúar hússins að skila styrknum sem þeim hafði verið veittur. Kom þá í útvarp Helgi Hjörvar og fagnaði því sérstaklega þar sem annars hefði skapast slæmt „fordæmi“! Fréttamaðurinn sá enga ástæðu til að spyrja Helga út í þessa kenningu hans. Þessi fullyrðing Helga vitnar um furðulega vanþekkingu á því sem máli skiptir í stjórnsýslu. Hafi skapast fordæmi í málinu, skapaðist það þegar borgaryfirvöld tilkynntu ákvörðun sína um styrkveitinguna. Það að styrkþegar skili síðar styrk, sem ekki einungis er búið að tilkynna um heldur einnig veita við virðulega athöfn, hefur ekkert með fordæmi að gera. Heldur Helgi Hjörvar kannske, að þegar ákveðið hafi verið að veita styrk til þessa umrædda húss hafi eigendur sambærilegra húsa öðlast tiltekinn rétt til styrkja, en þegar fyrstu styrkþegarnir endursendu ávísunina þá hafi hinir aftur misst rétt sinn?
Nú hafa borgaryfirvöld ákveðið að skipa sérstaka afbrotavarnarnefnd. Hafa þau jafnframt ákveðið að Helgi Hjörvar verði formaður hennar. Vera kann að Helgi sé betur að sér í forvörnum en fordæmum, en skyldi fordæmi það sem hann hefur sýnt í skattamálum verða haft til hliðsjónar við nefndarstörfin…