Íslenskt mál og ósannindi I-IV heita fjórar athyglisverðar blaðagreinar eftir Bjarna Hafþór Helgason sem birtust í Mogganum í vikunni. Í greinunum er sýnt hvernig andstæðingar kvótakerfisins hafa valið sér orð sem hljóma vel áróðurslega til að berjast gegn þessu kerfi. Orðin sem Bjarni Hafþór tekur fyrir eru eignatilfærsla, sægreifi, gjafakvóti og þjóð.
Bjarni segir að engin eignatilfærsla hafi átt sér stað ólíkt því sem áróðursmenn auðlindaskatts halda fram, enda verði verðmætin til vegna þekkingar í sjávarútveginum. Hann spyr hvort heimilin í landinu hafi einhverju tapað við að kvótakerfið var tekið upp og svarar því sjálfur að svo hafi ekki verið. Þvert á móti hafi kerfið verið þess valdandi að ný og vaxandi verðmæti séu að flytjast frá sjávarútveginum út um samfélagið. Sú eignatilfærsla valdi því að hagur allra vænkist og lífskjör séu að batna í landinu.
Næst fjallar Bjarni um orðið sægreifi og segir að með því sem verið að gefa ranga mynd af aðstæðum í sjávarútvegi. Gefið sé til kynna að örfáir menn njóti kerfisins, en það fái ekki staðist nánari skoðun. Skip og bátar sem fái að sækja fiskinn í þessu kerfi séu tæplega tvö þúsund og þegar skoðað er hversu margir eiga beint eða óbeint hlut í sjávarútvegsfyrirtækjunum komi í ljós að það sé að minnsta kosti langt yfir 100.000 manns.
Þriðja orðið sem Bjarni tekur fyrir er gjafakvóti. Hann segir að það orð flytji einhver mestu ósannindi í allri umræðunni, því ekkert hafi verið gefið þar sem enginn hafi verið til að gefa neinum neitt. Markmiðið með þessu orðavali sé að höfða til einhverrar lægstu kenndar mannskepnunnar, en það er öfundin. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að vanir áróðursmenn í auðlindaskattshópi höfði til þeirrar kenndar, því slíkt hefur verið gert áður þegar jafnaðarmenn af ýmsum toga hafa viljað rökstyðja aukin ríkisumsvif eða skerðingu persónufrelsis.
Fjórða og síðasta grein Bjarna Hafþórs fjallar um orðið þjóð. Hann segir að í talinu um auðlindaskatt og þjóð sé verið að rugla þjóðinni saman við ríkissjóð. Það skjóti því skökku við að þeir sem helst hafa sig í frammi með kvörtunum um spillingu í ríkisgeiranum og að þar sé illa farið með fé séu þeirrar skoðunar að best fari á því að ríkissjóður fái fleiri krónur. Bjarni bendir loks á að kvótakerfið hérlendis sé fyrirmynd annarra þjóða. Það er því væntanlega hluti af því hugviti sem talað er um á tyllidögum að Íslendingar skuli græða á og sérfræðiþekking okkar á sviði sjávarútvegs ætti að geta fleytt okkur langt. Tilraunir andstæðinga kvótakerfisins til að eyðileggja það með öllum tiltækum ráðum eru hins vegar aðeins til þess fallnar að gera alla þjóðina fátækari.