Fimmtudagur 9. júlí 1998

190. tbl. 2. árg.

Stjórn Talebana í Afganistan hefur fyrirskipað íbúum landsins að henda sjónvarpstækjum sínum, enda stríði sjónvarpsgláp gegn Islam, valdi geðrænum vandamálum og spilli siðferði. Þetta sýnir að auðvelt er að koma við einhverjum röksemdum vilji stjórnvöld banna almenningi ákveðna hegðun. Án þess að ætla að jafna afskiptasemi stjórnar Talebana við afskipti íslenskra stjórnvalda má finna margs konar óþarfa, rangláta og skaðlega afskiptasemi hins opinbera hér á landi.

Í gær minnti héraðsdómur á þetta þegar hann dæmdi fjóra menn fyrir að sýna og kenna hnefaleika. Í dómi héraðsdóms segir m.a. að „[m]arkmið löggjafans með setningu laga nr. 92, 1956 um að banna hnefaleika [hafi verið] af heilsufarslegum og siðgæðislegum toga,“ þannig að þar eru sambærileg rök og Talebanar nota gegn sjónvarpsglápi. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvort hnefaleikar og sjónvarpsgláp spilli siðferði og valdi heilsutjóni, ýmist á sál eða líkama. Það sem hér er verið að halda fram er að hið opinbera eigi ekki að banna tiltekna háttsemi með þeim rökum að hún spilli siðferði eða kunni að skaða þann sem sjálfviljugur tekur þátt í henni. Með því er hið opinbera farið að þrengja um of að borgurunum og komið út fyrir réttmætt verksvið sitt.

Olíufélagið Skeljungur hf. hefur nú nýverið kært svonefnt flutningsjöfnunargjald á olíu til Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Gjald þetta er lagt á allar innfluttar olíuvörur og síðan úthlutað úr sérstökum sjóði, Flutningsjöfnunarsjóði, til olíufélaganna til að niðurgreiða dreifingarkostnað þeirra vítt og breitt um landið. Telja forsvarsmenn Skeljungs að núverandi fyrirkomulag þessarar flutningsjöfnunar hafi leitt til þess að á síðustu 10 árum hafi Olíufélagið hf., ESSO, fengið rúmlega 400 milljónum króna meira úthlutað úr þessum sjóði en félagið greiddi til hans en Skeljungur hafi á hinn bóginn greitt rúmlega 300 milljónum króna meira til sjóðsins en félagið hafi fengið úthlutað úr honum. Þannig sé mismunurinn á tekjum ESSO og Skeljungs vegna þessa kerfis milli 700 og 800 milljónir króna á þessu árabili. Kerfið hefur m.ö.o. leitt til þess að fé hefur verið flutt í stórum stíl frá Skeljungi til samkeppnisaðilans ESSO!

Skeljungsmenn hafa um alllangt skeið reynt að hnekkja þessu óréttláta kerfi, sem felur í sér augljósa mismunun milli samkeppnisaðila. Ótrúlega lítill skilningur hefur verið á málflutningi þeirra á Alþingi. Hefur Framsóknarflokkurinn verið í fylkingarbrjósti þeirra sem barist hafa gegn nokkrum breytingum en ekki verður sagt að þingmenn annarra flokka hafi lagt mikið af mörkum til að koma breytingum í gegn. Framsóknarmenn bera því við að í kerfinu felist byggðastefna, en ekki verður annað séð en þeir séu fyrst og fremst að vernda stöðu ESSO, sem er flaggskipið í flota Smokkfisksins svonefnda, en með því hugtaki er eins og kunnugt er vísað til þeirra gömlu Sambandsfyrirtækja, sem öðluðust nýtt líf fyrir nokkrum árum þegar Landsbankinn var látinn taka yfir skuldir Sambands íslenskra samvinnufélaga. Gömlu Sambandsfyrirtækin eru vön að geta treyst á margvísleg forréttindi og fyrirgreiðslu í rekstri sínum og Framsóknarflokkurinn hefur jafnan verið tæki þeirra til að viðhalda slíku fyrirkomulagi.

Skeljungur kærði flutningsjöfnunarkerfið til Samkeppnisstofnunar fyrir fáum árum. Niðurstaða hennar var sú, að flutningsjöfnunarkerfið sem slíkt fengi staðist að íslenskum lögum en nánari útfærsla þess færi hins vegar í ákveðnum atriðum í bága við markmið samkeppnislaga um frjálsa og eðlilega samkeppni. Þrátt fyrir þetta hefur kerfinu ekki verið breytt. Ekki er heldur víst að niðurstaða hjá Eftirlitsstofnun EFTA breyti miklu í þessu máli. Annars vegar er óvíst að stofnunin telji málið á sínu verksviði og hins vegar hafa íslensk stjórnvöld ekkert endilega verið að flýta sér að laga sig að niðurstöðum stofnunarinnar, einkum ekki þegar pólitísk þungavigt leggst gegn breytingum. Skeljungur hefur hins vegar með hinni nýju kæru sinni vakið athygli enn á ný á þessu óréttláta fyrirkomulagi og er vonandi að það verði til þess að málið verði tekið upp á hinum pólitíska vettvangi og óréttlætið leiðrétt.