Sameiningarmál vinstri manna eru enn einu sinni komin í sviðsljós fjölmiðlaumfjöllunar hér á Íslandi. Það er eins og fjölmiðlungar noti þetta málefni ætíð til að fylla upp í fréttatíma og síður dagblaðanna þegar ekkert fréttnæmt er að gerast í þjóðfélaginu. Það væru því í raun afar vondar fréttir fyrir fjölmiðlana ef sameiningin tækist, enda yrðu þeir þá yfir sumarmánuðina að einbeita sér að fréttum af gúrkuuppskerunni og vexti annarra garðávaxta.
Þáttur fjölmiðla í að viðhalda umræðunni um sameiningu vinstri manna er reyndar athyglisverður, enda virðast ýmsir þáttagerðamenn og fréttamenn hafa litið á það sem hlutverk sitt í gegnum tíðina að ýta undir þessa þróun. Það voru ófá skiptin sem Sigurður G. Tómasson vakti máls á þessu efni á Rás 2 hér á árum áður og eins hefur Ævar Kjartansson á Rás 1 verið iðinn við kolann. Fjölmargir starfsbræður þeirra á Ríkisútvarpinu hafa svo fylgt í kjölfarið og hafa hvað eftir annað kallað Svan Kristjánsson aðra ámóta fræðimenn til sín í viðtöl um sameininguna, jafnvel þótt ekkert hafi verið af málinu að frétta.
Um þessar mundir er þó vissulega hægt að finna fréttatengda fleti á sameiningarumræðunni enda verður tekist á um málið á aukalandsfundi Alþýðubandalagsins um helgina. Hér á þessum vettvangi verður ekki tekin afstaða til þess hvort íslenskir vinstri menn ættu að sameinast í einum flokki eða fleirum, það er alfarið þeirra mál. Hins vegar er athyglisvert að fylgjast með því hversu heiftúðugar deilurnar um sameininguna eru og freistandi er að spyrja, hvernig í veröldinni fólk, sem tilbúið er að taka þátt í svona deilum, ætlar að fara að því að starfa saman í flokki. Kannski þetta mikla samrunaferli endi bara með því að flokkunum á vinstri vængnum fjölgi. Það hefur jú yfirleitt orðið niðurstaðan þegar sameiningin hefur verið rædd og undirbúin á umliðnum árum.