Í dag eru níu ár liðin frá fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar í höfuðborg alþýðulýðveldisins Kína. Aðdragandinn var sá að stúdentar höfðu um hríð mótmælt ríkisstjórn jafnaðarmanna og lét hún sig þá ekki muna um að siga hernum á mótmælendurna. Síðan þá hafa stjórnvöld í alþýðulýðveldinu ekki séð ástæðu til að harma þennan atburð, heldur hafa þau þvert á móti nýlega lýst þeirri skoðun sinni að aðgerðir þeirra hafi átt rétt á sér.
Þessi hörmulegi atburður minnir á mikilvægi þess að þær hugmyndir sem stjórnvöld styðjast við byggist á því að einstaklingurinn sé mikilvægur og að frelsi hans og réttindi séu virt. Nauðsynlegt er að ríki séu réttarríki, en stjórnist ekki af geðþótta ráðamanna. Stjórnvöld í alþýðulýðveldinu Kína hafa að vísu gefið í skyn að þau hyggist breyta stjórnarfarinu í þá átt, en enn sem komið er bendir fátt ril að svo verði í bráð.
Einhvern tímann var haft á orði að formennska í Sjálfstæðisflokknum, embætti borgarstjóra í Reykjavík, embætti forseta Íslands og efstu sæti á listum sprengiframboða ættu eitt sameiginlegt; um leið og slíkt losnaði legði Ellert B. Schram Ellert B. Schram til. Ef sú kenning er rétt, er þess eflaust skammt að bíða að Ellert gefi til kynna áhuga á að taka þátt í framboði Sverris Hermannssonar. Ættu þeir félagar að ná vel saman enda kynntust þeir vel þegar þeir sátu saman á þingi. Ellert og hæfileikar hans urðu Sverri þá svo minnisstæðir að hann orti um hann sérstaka vísu:
Ellert gefur engin grið
og er það miður.
Naumar mun hann vaxinn upp
en niður.