Miðvikudagur 3. júní 1998

154. tbl. 2. árg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kvartaði nokkuð undan því fyrir kosningar að kosningabaráttan væri „amerísk“. Það sem öðru fremur einkennir kosningar vestan hafs er mikil skrautsýning á frambjóðendum. Sú persónudýrkun er ekki ósvipuð því sem R-listinn viðhafði einmitt um Ingibjörgu Sólrúnu, en aðrir frambjóðendur listans sáust vart og lítt var minnst á málefni. Allar auglýsingar R-lista snerust um Ingibjörgu og eina umfjöllunin um aðra frambjóðendur tengdist máli sem kallað er Arnarsson og Hjörvar og var ekki uppáhalds umræðuefni R-listans.

Ofan úr Ríkissjónvarpi berast svo þær fregnir að í umræðuþætti kvöldið fyrir kjördag hafi auglýsinga- og ímyndarhönnuður R-listans setið andspænis borgarstjóra í myndverinu og fjarstýrt kjálkabeinunum hans! Er þetta sennilega í fyrsta og eina sinn sem ímynd íslensk stjórnmálamanns er orðin svo þaulskipulögð („amerísk“) að hann má ekki opna munninn í sjónvarpssal án þess að ímyndarskaparinn gefi merki um hvenær má hlæja, hvessa röddina, segja „Árni minn“ o.s.frv.

Þessi ímyndarhönnuður – leikstjóri borgarstjóra – er forsprakki GSP-almannatengsla. Svo skemmtilega vill til að á þessu ári hafa GSP-almannatengsl fengið á fimmtu milljón króna úr sjóðum Reykjavíkurborgar til að láta „afrek“ R-lista líta vel út í fjölmiðlum. Í öllu kapphlaupinu þessa dagana að fletta ofan af spillingu og sóun almannafjár er athyglisvert að enginn skuli hafa fjallað um þessi almannatengsl borgarstjóra.