Tillögur fiskifræðinga um veiði fyrir næsta tímabil voru lagðar fram í gær. Þær hljóða upp á að veiðar megi auka og er mat flestra að það megi þakka aðhaldi síðustu ára. Það vekur athygli að líkt og síðustu ár eru það útgerðarmennirnir sem vilja gæta aðhalds við veiðarnar á meðan sjómenn telja að meira megi veiða. Afstaða útgerðarmanna til þessara hluta breyttist mjög við upptöku núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og er það engin tilviljun. Nú eru það hagsmunir þeirra að stofnarnir vaxi og dafni, vegna þess að þeir eiga tiltekinn hluta af þeim kvóta sem veiða má. Áður voru það einungis skammtímahagsmunir sem réðu afstöðu þeirra líkt og sjómanna nú. Þannig er fiskveiðistjórnunarkerfið enn ein röksemdin fyrir því að eignarrétturinn skilar árangri við varðveislu náttúruauðlinda.
Í úttekt í nýjasta tölublaði The Economist er fjallað um auðlindir hafsins og verndun þeirra. Blaðið viðrar sömu skoðun og fram kemur hér að ofan og segir m.a.: Koma á auðlindum í einkaeign þar sem það er hægt. Nokkur lönd hafa látið einstaka útgerðarmenn hafa fastan hluta af veiðinni. Þessir kvótar eru varanlegir og þá má kaupa og selja, þannig að þeir endurspegla virði fisksins í sjónum. Kvótar hvetja útgerðarmenn til að hugsa um að fjárfesta í verndun stofnsins í stað þess að reyna að veiða fiskinn áður en einhver annar verður fyrri til.
The Economist bendir líka á að ekki sé rétt að niðurgreiða það sem spillir umhverfinu vilji menn vernda umhverfið. Þetta leiðir hugann að sjómannaafslættinum hérlendis, en hann er einn af tiltölulega fáum agnúum sem sníða þarf af íslenskum sjávarútvegi. Sjómannaafslátturinn gerir veiðar ódýrari og ýtir því undir ofveiði. Þarna er komin enn ein ástæðan til að hætta þeirri mismunun sem í sjómannaafslættinum felst.